Gunnar Gunnarsson hjá Fossum markaðir segir að þó markaðir hafi verið búnir að gera ráð fyrir stýrivaxtalækkun Seðlabankans í nóvember hafi þeir ekki verið búnir að gera ráð fyrir lækkun nú.

„Skuldabréfamarkaðurinn var að einhverju leiti búinn að gera ráð fyrir lækkun í sínu verðmati, en hlutabréfamarkaðurinn hafði ekki gert það,“ segir Gunnar um mögulega skýringu á hækkunum á mörkuðum dagsins sem Viðskiptablaðið greindi frá í morgun.

„Langflestir á markaði spáðu vaxtalækkun í nóvember en núna fóru menn allt í einu að efast um þá spá sína og héldu að það yrði örugglega engin vaxtalækkun, því mun færri spáðu vaxtalækkun núna.“

Spár enn undir verðbólgumarkmiðum

Bendir hann á að Seðlabankinn vísi í að við séum að sjá aukinn útflutning í stað einkaneysludrifinn hagvöxt.

„Þeir rökstyðja það með því að samsetning hagvaxtarins sé með öðrum hætti heldur en hingað til, því hún sé ekki einkaneysludrifin, heldur drifin áfram með útflutningi á þjónustu,“ segir Gunnar.

„Einkaneyslan er auðvitað töluverð, en hún er undir spá Seðlabankans. Einnig erum við langt undir verðbólgumarkmiði og svo spá stjórnendur stærstu fyrirtækjanna verðbólguhorfum sem enn eru undir verðbólgumarkmiðinu.“