Fjárfestar hafa nú þegar valið sigurvegara í forsetakosningunum í Frakklandi: „Emmanuel Macron“. Hreyfingar á markaði benda sterklega til þess að Macron sigri kosningarnar um helgina að því er kemur fram í frétt CNN Money .

Macron styður áframhaldandi veru Frakklands í evrusamstarfinu, en Marine Le Pen sem hann etur kappi við í annarri umferð forsetakosninganna er hins vegar á því að Frakkar eigi að hætta í evrusamstarfinu. Le Pen er heldur ekki þekkt fyrir hrifningu af frjálsri verslun.

Frambjóðendurnir tveir tókust á í sjónvarpskappræðum í gær, en sérfræðingar og fjölmiðlar töldu Macron sigurstranglegri. Því voru markaðsaðilar sammála, en úrvalsvísitalan franska hækkaði um rúmt eitt prósent í dag og einnig styrktist evran um 0,4 prósentustig gagnvart dollaranum.