*

þriðjudagur, 18. desember 2018
Innlent 14. mars 2018 09:21

Markaðsvirði Kviku skráð á 12 milljarða

Kvika banki verður skráður á First North markaðinn í Kauphöllinni á föstudag en mikil viðskipti hafa verið með bréf bankans.

Ritstjórn
Aðsend mynd

Markaðsvirði Kviku banka verður skráð ríflega 12 milljarðar króna þegar bréf bankans verða tekin til viðskipta í Kauphöllinni næstkomandi föstudag að því er Fréttablaðið greinir frá.

Eins og Viðskiptablaðið hefur sagt frá hefur bankinn nú í nokkurn tíma skoðað skráningu á First North markað Kauphallarinnar en markmiðið með því er að fá betri verðmyndun á bréf í félaginu og auðvelda hluthöfum viðskipti.

80% bréfa bankans skipt um hendur á rúmu ári

Ármann Þorvaldsson forstjóri Kviku segir nú að á undanförnum mánuðum hafi verið mikil viðskipti með hlutabréf bankans sem ýti undir skráninguna.

„Ég hugsa að um 80 prósent af hlutafé bankans hafi skipt um hendur á síðustu 15 mánuðum, þrátt fyrir að bréfin séu ekki skráð,“ segir Ármann. 

„Það hefur gert það að verkum að við höfum reynt að finna leið til þess að skapa gagnsærri vettvang til að eiga viðskipti með bréf í bankanum, í stað þess að þau fari fram í gegnum miðlara hér og þar.

Fyrir hluthafana eykur skráningin því seljanleika með bréf bankans og þá gerir skráningin þeim sem hafa áhuga á að kaupa lægri fjárhæðir í bankanum auðveldara um vik.“ 

Ármann segir að einnig hafi verið rætt um að setja bréf bankans á aðallista Kauphallarinnar en niðurstaðan hafi verið að skráning á First North markaðinn fullnægi þörfum bankans eins og staðan er nú.