Um miðbik febrúarmánaðar birti Sjóvá uppgjör félagsins fyrir árið 2018. Hagnaðurinn nam 652 milljónum króna í fyrra en 1,75 milljörðum króna árið 2017 og lækkar því um 63% á milli ára. Hagnaður af vátryggingastarfsemi fyrir skatta nam 1,6 milljörðum króna í fyrra miðað við 1,2 milljarða árið 2017. Samsett hlutfall lækkaði úr 99,4% í 97,4% á milli ára. Hins vegar var tap af fjárfestingarstarfsemi fyrir skatta 679 milljónir króna miðað við 927 milljóna hagnað árið 2017. Þá nam ávöxtun eignasafns félagsins 0,9% en var 5,9% árið 2017. Hermann Björnsson, forstjóri Sjóvá, kveðst ánægður með uppgjörið.

„Þó að það dragi úr hagnaði milli ára er það aðallega vegna lægri fjárfestingatekna. Við erum með þekkta fjárfestingastefnu og markaðirnir voru okkur ekki hagfelldir á síðasta ári. Það sem er þó ánægjulegt og vegur upp á móti slæmri afkomu af fjárfestingastarfsemi er vátryggingastarfsemin. Síðustu tvö ár höfum við markvisst unnið að því að bæta vátryggingareksturinn og hefur iðgjaldavöxturinn verið heilbrigður - þ.e.a.s. eigin iðgjöld vaxa umfram eigin tjón sem er mikilvægt.

Mér hefur alltaf þótt skipta miklu máli að báðir þessir þættir starfseminnar séu að skila jákvæðri niðurstöðu. Fjárfestingastarfsemin er þannig úr garði gerð að það er erfiðara að hafa bein áhrif á hana. Það er hins vegar auðveldara að hafa áhrif á vátryggingastarfsemina þó að það gerist ekki í einni andrá. Í kringum árið 2007 var hefðbundinn vátryggingarekstur ekki að skila miklu, en á sama tíma skiluðu eignamarkaðir mikilli arðsemi og því var einblínt á fjárfestingarnar. Okkar áhersla er að einblína á hvoru tveggja og við vonumst til þess að markaðirnir fari að taka við sér," segir Hermann.

Þarf að dýpka markaðinn

Í gegnum tíðina virðist fjárfestingastarfsemi hafa verið lykilhlekkur í rekstri tryggingafélaga og staðið á bak við bróðurpart hagnaðar félaganna á meðan vátryggingastarfsemin hefur stundum gengið brösuglega. Á síðasta ári var raunin önnur hjá ykkur og vátryggingastarfsemin skilaði hagnaði meðan fjárfestingastarfsemin skilaði tapi. Hvað útskýrir þennan viðsnúning?

„Það sem hefur einkennt markaðinn núna er smæð hans, sem sagt hversu grunnur hann er. Auk þess hafa litlar hreyfingar verið á markaðnum undanfarin misseri, stærstu fjárfestarnir eru lífeyrissjóðir en þeir hafa í auknum mæli verið að leita í fjárfestingar erlendis. Svo má einnig nefna að það þarf ansi lítil viðskipti til að hreyfa við gengi bréfa sem gengur ekki til lengdar og það væri mjög gott ef það væri hægt að dýpka markaðinn meira, en þá þurfa fleiri að koma að honum. Einstaklingar hafa til dæmis verið að halda að sér höndum í fjárfestingum, þá sérstaklega á hlutabréfamarkaði. Það sem vegur þó aðeins upp á móti þessu er erlend fjárfesting sem hefur verið að koma hingað til lands.

Það er til dæmis áhugavert að þegar skoðaður er eigendahópur Sjóvá þá er hartnær helmingur hlutabréfa í eigu lífeyrissjóða, þriðjungur í eigu einkafjárfesta og um það bil 15% í eigu erlendra sjóða. Það er jákvætt en eins og áður segir þá er hreyfingin, bæði með bréf Sjóvár og almennt á markaðnum, of lítil. Það gæti haft sín áhrif þar að það gætir ákveðinnar óvissu um þróun stærstu atvinnugreinanna og kjarasamningamálin eru einnig í óvissu, sem fær fólk til þess að líta svo á að glasið sé hálf tómt fremur en hálf fullt," segir Hermann.

Nánar er rætt við Hermann í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .