Bandaríski hagfræðingurinn, Robert Shiller segir að lítið flökt á mörkuðum í bland við há V/H-hlutföll geti leitt til þess að verðfall geti orðið á hlutabréfamörkuðum í Bandaríkjunum. Þetta sagði Nóbelsverðlaunahafinn í viðtali við CNBC . Ummælin koma á sama tíma og S&P 500, Dow Jones og Nasdaq hlutabréfavísitölurnar eru í hæstu hæðum á meðan CBOE flökt-vísitalan hefur aldrei verið lægri.

Samkvæmt Shiller gæti lítið flökt á mörkuðum verið lognið á undan storminum. „Þetta er fyrirbæri sem að heldur fyrir mér vöku". Shiller hefur einnig áhyggjur af stöðu CAPE hlutfallsins sem er hlutfall sem Shiller bjó til sjálfur og sýnir VH-Hlutfall fyrirtækja leiðrétt fyrir skammtímasveiflum til 10 ára. Hlutfallið er nú 30 fyrir S&P 500 vísitöluna og hefur ekki verið hærra nema á árunum fyrir kreppuna miklu og áður en netbólan sprakk.

„Ég hef áhyggjur af því að í sögulegu samhengi hefur hagnaður átt það til að leita til baka í meðaltalið," sagði Shiller en miðgildi CAPE-hlutfallsins frá árinu 1880 er 16. „Reyndar erum við með forseta sem ætlar að gera Bandaríkin frábær á ný og ef honum tekst ætlunarverk sitt þá gætum við verið fara inn í áður óþekkt tímabil. En það yrði þá í fyrsta skipti í sögu Bandaríkjanna."

Shiller sem hlaut Nóbelsverðlaun í hagfræði árið 2013 er þekktur fyrir að hafa spáð fyrir um bæði netbóluna og húsnæðisbóluna árið 2008 í bók sinni Irrational Exuberance. „Áhrifin munu án nokkurs vafa verða slæm á hlutabréfamörkuðum. Markaðurinn er hátt verðlagður og hefur einungis verið hærri á árunum 1929 og 2000. Við gætum séð fram á stóra leiðréttingu. Þetta er ekki spá, þetta eru raunverulegar áhyggjur," sagði Shiller að lokum.

Hér má sjá umfjöllun um CAPE hlutfallið með tilliti til íslenska hlutabréfamarkaðarins.