Engar sérstakar aðgerðir eða eftirlit hefur verið skipulagt til að fylgjast með því hvort afnám vörugjalda skili sér í lægra vöruverði. Markaðurinn mun hins vegar sjá um að veita fyrirtækjum aðhald og sjá til þess að þau lækki vöruverð til samræmis við breytingarnar. Þetta sagði Ólöf Nordal, ráðherra neytendamála, í kvöldfréttum stöðvar 2.

Talsvert hefur verið rætt um hvort afnám vörugjalda, sem tók gildi nú um áramót, muni skila sér að fullu í lægra verði til neytenda og hvernig hægt sé að fylgjast með því.

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra sagði í sjónvarpsþættinum Kryddsíld á gamlársdag að rætt hefði verið í ríkisstjórninni að ráðast í sérstakt átak, í samstarfi við hagsmunaaðila, til að fylgjast með verðlagsþróun.

Ólöf Nordal segir hins vegar að ekki sé tilefni til að hafa opinbert eftirlit með verðlækkuninni. Hún sé almennt ekki talsmaður opinbers verðlagseftirlits en hvetur neytendur til að fylgjast grannt með vöruverði.