*

þriðjudagur, 23. apríl 2019
Innlent 31. ágúst 2017 07:32

Markaðurinn snöggkólnar

Skýrar vísbendingar eru um það að húsnæðismarkaðurinn sé loks farinn að kólna. Íbúðir í fjölbýli hafa ekki hækkað eins lítið í eitt og hálft ár.

Pétur Gunnarsson
Fasteignaverð á fjölbýli hækkaði einungis um 0,32% á milli mánaða.
Haraldur Guðjónsson

Húsnæðismarkaðurinn virðist vera að kólna eftir mikinn hækkunarfasa á undanförnum misserum. Í verðbólgumælingum Hagstofu Íslands kemur fram að loks hægði á verðhækkunum á húsnæðisliðnum á milli mánaða en hækkunin nam 0,43% og hækkaði reiknuð húsaleiga um 0,55% milli mánaða og hafði það 0,11% áhrif á vísitölu neysluverðs til hækkunar. Árstakturinn lækkar því úr 24,2% í 22,9%. Kastljósinu er beint að þessari þróun í umfjöllun Greiningardeildar Arion banka um verðbólgumælingar Hagstofunnar.

Valdís Gunnarsdóttir, sérfræðingur hjá Greiningardeild Arion banka, segir í samtali við Viðskiptablaðið að það komi til með að skýrast á næstu mánuðum hvort að þessi þróun haldi áfram „Það er náttúrulega hægt að færa rök fyrir því að það hægist á markaðnum út af sumarfríi og þess háttar  — en við erum sannfærð um að markaðurinn sé farinn að kólna vegna aukningar á framboði og þá ekki bara yfir sumarmánuðina,“ bætir Valdís við.

Ekki eins lítil hækkun á fjölbýli frá mars 2016

Það vakti sérstaka athygli Greiningardeildarinnar að fasteignaverð á fjölbýli hækkaði einungis um 0,32% á milli mánaða en ekki hefur sést eins lítil hækkun frá því í mars 2016 þegar hún mældist 0,29% milli mánaða.

Valdís segir að þau hafi tekið eftir því meira hafi verið byggt af fjölbýli upp á síðkastið. „Það hafa verið að koma inn á markaðinn stórar eignir í Kórahverfi sem og í Reykjavík. Ég held að það megi að miklu leyti skýra þetta með því. Einnig hafa hækkanir á fjölbýli verið rosalegar. Það virðist enn vera eitthvað loft eftir í sérbýlisblöðrunni,“ bætir hún við.

Skýrar vísbendingar um kólnun

Skýrar vísbendingar eru nú uppi um það að framboðsaukning á húsnæði hafi haft áhrif á íbúðaverð. Til að mynda er hægt að benda á stöðuga fjölgun auglýstra fasteigna frá mars síðastliðnum. Greiningardeild Arion banka vakti athygli á því fyrir nokkrum mánuðum að nokkrir mánuðir líða jafnan frá því að breytingar á fasteignavefsíðum hafa áhrif á þinglýsta kaupsamninga og aukalega líða nokkrir mánuðir þar til að þau áhrif birtast í mælingu Hagstofu Íslands.

Valdís segir að þetta gefi nokkuð skýra mynd af þróuninni. Hún útskýrir að Greiningardeildin hafi verið að fylgjast grannt með heimasíðum fasteignasala og þá sérstaklega þróun fjölbýlis. „Við höfum skoðað meðaleign til þess að geta fylgst með þróuninni. Framboð hefur klárlega aukist frá því í mars. Við vorum í raun að reikna með þessum tölum fyrr inn í vísitölu neysluverðs, en við vorum ánægð að sjá að loksins kom einhver breyting,“ segir hún.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu sem kom út á morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð

25 ára afmælistilboð VB!

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir út árið 2019. Innifalið í tilboðinu er:

  • - Viðskiptablaðið sent heim
  • - Vefaðgangur að vb.is
  • - Frjáls verslun sent heim
  • - Fiskifréttir sent heim