Heildarvelta með skuldabréf á fyrstu fjórum mánuðum ársins nam 977 milljörðum króna á meðan heildarvelta hlutabréfaviðskipta nam 385 milljörðum króna á sama tíma. Það fjármálafyrirtæki sem hafði mesta hlutdeild af viðskiptum með skuldabréf er Kvika eða 25% af heildarveltu.

Á eftir Kviku koma Íslandsbanki og Landsbanki sem hvor um sig hafa 19% af heildarveltu. Landsbankinn hefur hins vegar mesta hlutdeild af veltu með hlutabréf á sama tímabili eða 25,34%. Á eftir honum kemur Arion banki með 23,8% hlutdeild og svo Kvika með 19,08%.

Miklar breytingar

Áhugavert er að bera saman niðurstöðurnar við sama tímabil í fyrra og svo allt árið 2015. Hafa ber í huga í þeim samanburði að miklar breytingar urðu á markaðnum á síðasta ári. Stærsta breytingin er sú að MP Banki og Straumur fjárfestingabanki sameinuðust í júní undir nafni Kviku. Með sameiningunni var sameinað félag með eina viðskiptavakt í stað tveggja þegar félögin voru aðskilin en frá og með júlí á síðasta ári hefur Straumur enga hlutdeild í viðskiptum í Kauphöllinni.

Á svipuðum tíma og sameining MP banka og Straums gekk í gegn stofnuðu nokkrir fyrrverandi starfsmenn Straums verðbréfafyrirtækið Fossar markaðir en það náði strax ágætri hlutdeild á markaðnum. Þar að auki keypti Arctica Finance H.F. Verðbréf síðastliðið haust. Sviðsmyndin á fjármálamarkaði um þessar mundir er því nokkuð ólík þeirri sem var fyrir ári.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .