Íslenskir bændur koma til með að fá greitt fyrir að hætta sauðfjárrækt eða að draga úr henni. Samkvæmt nýjum tillögum stjórnvalda vegna erfiðleika í sauðfjárrækt er markmiðið með aðgerðum að fé verði fækkað um 20% með því að gefa bændum kost á því að hætta sauðfjárframleiðslu en halda 90% greiðslum samkvæmt sauðfjársamningi í fimm ár. Hægt er að lesa tillögur stjórnvalda hér.

Eins og áður hefur verið greint frá hafa sauðfjárbændur mátt þola umtalsverða tekjuskerðingu undanfarin tvö ár. Tillögur um aðgerðir stjórnvalda og áherslur fóru til umfjöllunar og ákvörðunar á vettvangi Alþingis og samtaka bænda í kjölfarið. Meginmarkmið þeirra er að draga úr framleiðslu um 20%, mæta kjaraskerðingu bænda, styðja við sauðfjárbúskap á jaðarsvæðum og gera úttekt á birgðum sauðfjárafurða og afurðastöðvakerfinu að því kemur fram í frétt á vef atvinnu- og nýssköpunarráðuneytis.

Þá miðist greiðslur til hvers bónda við greiðslumark, innlegg, fjárfjölda og aðrar forsendum. Val verður á því hvort framleiðandi fái greiðsluna greidda í eingreiðslu eða með jöfnum greiðslum á fimm ára tímabili. Þeir eiga kost á greiðslu sláturálags sem taka ákvörðun um fækkun að lágmarki 50 kindur haustið 2017. Gert er ráð fyrir því að verja 250 milljónir króna til þessa verkefnis.