Talið er að árlega noti hver Íslendingur 105 plastpoka að meðaltali, en samkvæmt samningi sem Samtök verslunar og þjónustu hafa gert við Umhverfis- og auðlindaráðuneytið er nú stefnt að því að draga úr notkun plastpoka niður í 90 poka árlega árið 2019 og í 40 poka árlega 2025.

Í gær hleypti ráðherra málaflokksins, Björt Ólafsdóttir, af stað átaki Pokasjóðs þessa efnis sem ber yfirskriftina „Tökum upp fjölnota“ ásamt fulltrúum aðildarverslana sjóðsins. Var af því tilefni klippt á borða úr plastpokum sem hefði náð frá Reykjavík til Selfoss ef hann hefði verið gerður úr þeim fjölda plastpoka sem landsmenn nota á einum degi.

Frá því að fyrsti plastburðarpokinn leit dagsins ljós hafa 1 til 1,5 milljarður plastpoka verið seldir á Íslandi, en í tilkynningu frá Pokasjóði um verkefnið er markmið sjóðsins að leggja sjálfan sig niður.