Stofnmæling botnfiska á Íslandsmiðum er hafin og stendur yfir næstu þrjár vikurnar. Fjögur skip taka þátt í verkefninu að þessu sinni; togararnir Ljósafell SU og Barði NK og rannsóknaskipin Árni Friðriksson og Bjarni Sæmundsson. Alls verður togað á um 600 stöðvum á 20-500 m dýpi umhverfis landið.

Verkefnið, sem einnig er nefnt marsrall eða togararall, hefur verið framkvæmt með sambærilegum hætti á hverju ári síðan 1985. Helstu markmið eru að fylgjast með breytingum á stofnstærðum, aldurssamsetningu, fæðu, ástandi og útbreiðslu botnfisktegunda við landið. Einnig verður sýnum safnað vegna ýmissa rannsókna, t.d. á mengandi efnum í sjávarfangi.

Helmingur togstöðva var í upphafi staðsettur af skipstjórum, en öðrum stöðvum var dreift um miðin með tilviljunarkenndum hætti. Undanfarin ár hafa skipstjórar einnig sett út aukastöðvar þar sem von er um þorsk í útköntum.

Úrvinnsla mælinganna og aldursgreiningar fara fram í lok mars og helstu niðurstöður verða kynntar í apríl.

Hægt er að fylgjast með ferðum skipanna í rauntíma HÉR .