ORF Líftækni hefur ráðið Mörtu Guðrúnu Blöndal til starfa sem yfirlögfræðing fyrirtækisins. Auk leiðandi hlutverks í lögfræðilegum viðfangsefnum félagsins mun Marta sinna verkefnum á sviði viðskiptaþróunar. Marta hefur þegar hafið störf hjá félaginu.

Marta starfaði áður sem aðstoðarframkvæmdastjóri og lögfræðingur Viðskiptaráðs Íslands og hefur yfirgripsmikla þekkingu á íslensku atvinnulífi og lagaumhverfi fyrirtækja hér landi.

Í störfum sínum fyrir ráðið stýrði hún meðal annars útgáfu leiðbeininga um stjórnarhætti fyrirtækja og sat í samráðshópi útgáfuaðila stjórnarháttaleiðbeininga í Evrópu og á Norðurlöndum. Samhliða störfum fyrir Viðskiptaráð hélt Marta utan um starfsemi Gerðardóms Viðskiptaráðs Íslands sem framkvæmdastjóri gerðardómsins.

Áður starfaði Marta sem fulltrúi á Juris lögmannsstofu og starfsmaður endurupptökunefndar innanríkisráðuneytisins. Hún lauk meistaranámi í lögfræði frá Háskóla Íslands árið 2013 og hlaut réttindi sem héraðsdómslögmaður árið 2016.