Martak ehf. og rannsóknarfyrirtækið Matís hafa gert með sér rammasamkomulag um að efla þekkingu við vinnslu sjávarafurða. Mikil tækifæri eru að mati Martaks og Matís í því að bæta núverandi vinnsluferla við vinnslu sjávarafurða og minnka þannig umhverfisáhrif framleiðslunnar.

Um er að ræða stefnumarkandi rammasamning sem gengur út á að auka nýtingu hráefnis, lengja líftíma framleiddrar vöru, auka nýtingu á því sem til fellur við framleiðslu, svokallaða aukahráefni, og draga úr orku- og vatnsþörf í öllum stigum framleiðslunnar.

„Sem metnaðarfullt fyrirtæki sem horfir stöðugt til þess að bæta eigin framleiðslu og stuðla að hagkvæmni og nýtingu viðskiptavina okkar teljum við afar mikilvægt að fá aðgang að þeirri þekkingu og fagmennsku sem Matís býr yfir,“ segir Stefán Haukur Tryggvason, framkvæmdastjóri Martaks.

Matís er þekkingarfyrirtæki sem sinnir rannsóknaþjónustu og nýsköpunarstarfi í matvæla- og líftækniiðnaði. Matís veitir ráðgjöf og þjónustu til fyrirtækja í sjávarútvegi og landbúnaði, sem og íslenska ríkinu.

Martak ehf. er útflutningsfyrirtæki sem starfar við þróun og framleiðslu á lausnum og búnaði til vinnslu sjáfarafurða þó einkum rækjuafurða. Fyrirtækið starfar á Íslandi og í Kanada, Bandaríkjunum og Evrópu..