Andrés Magnússon framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu segir að sé sé alveg sama þó Matvælastofnun segist ekki eiga að hafa eftirlit með vistvænni framleiðslu.

Óviðunandi að nota lagalegar hártoganir

„Þarna er um matvælaframleiðslu að ræða sem hefur augljóslega brotið allar reglur, bæði lagalegar og siðferðislegar og að stofnunin telji sér ekki skylt upplýsa neytendur um hvernig málum er háttað innan fyrirtækisins er óviðunandi með öllu,“ segir Andrés um uppljóstrun Kastljóss í gærkvöldi um framleiðslu fyrirtækisins Brúnegg.

„Það er algerlega klárt að þarna hefur stofnunin í raun og veru brugðist hlutverki sínu, þó hægt sé að fara út í einhverjar lagalegar hártoganir, eins og mátti skilja á þeim, um að þeirra hlutverk væri ekki að hafa eftirlit með vistvænni framleiðslu.“

MAST kostar hátt í 1,7 milljarða

Andrés bendir á að stofnunin hafi vitað um langt árabil að pottur væri brotinn í starfsemi fyrirtækisins, en eins og RÚV fjallaði um fyrr í dag hefur stofnunin viðurkennt mistök í málinu.

„Bæði er hreinlega verið að blekkja neytendur, en svo er MAST, sem er opinber eftirlitsstofnun, að kosta einhverja 1,6 til 1,7 milljarða á ári,“ segir Andrés sem segir uppljóstrunina vekja upp milljón spurningar.

„Þetta tilvik sem við sjáum núna, og það hvernig Matvælastofnun hefur höndlað þetta mál, hlýtur að vekja enn og aftur upp kröfuna um það að þessi starfsemi verði ekki í því horfi sem hún er núna.“

Starfsemi betur komin hjá einkafyrirtækjum í faggildingu

Andrés segir tækifæri liggja í því að færa verkefni sem eru nú í höndum opinberra eftirlitsaðila til faggildra fyrirtækja.

„Stór hluti af starfsemi Matvælastofnunar væri betur komin hjá þeim fyrirtækjum sem eru faggilt og vinna sem faggildingarfyrirtæki. Það eru faggild fyrirtæki sem annast skoðun á bílunum okkar, Frumherji, Aðalskoðun,Tékkland, þetta eru allt faggild fyrirtæki og byggja öll á löggjöf um faggildingu,“ segir Andrés sem segir almennt eftirlit eigi að vera í höndum einkafyrirtækja og ódýrara sé að fylgjast svo með þeim.

„Kerfið þarf að vera gagnsætt, og það sé eftirlit með kerfinu alveg á sama hátt og fylgst er með bifreiðaskoðunarfyrirtækjum. Það er komið með bíla og athugaði hvort þeir geri þetta lögformlega, og séu ekki að hleypa einhverjum druslum í gegn.“

Eftirlitsþáttum úthýst víðast hvar í kringum okkur

Andrés segir mikilvægt að innleiða samkeppni sem geti þá verið með staðla sem neytendur geti treyst á að standist kröfur um vistvæna framleiðslu eða annað.

„Það er það sem við erum þráfaldlega að benda á, að á sama hátt og löggjafinn opnaði fyrir samkeppni í skoðun á bílunum okkar, að öryggismálin eru þannig enn höfð í forgrunni. Svona sé hægt að hafa eftirlit með byggingum, með matvælaöryggi, dýravelferð og með hinu þessu,“ segir Andrés sem segir slíka starfsemi betur komið í höndum faggildingarfyrirtækja heldur en hjá hinu opinbera.

„Víðast hvar hérna í kringum okkur, ég nefni sem dæmi Svíþjóð, þar eru meira og minna öllum þessum eftirlitsþáttum úthýst til svona fyrirtækja. Málefni faggildingar, hafa hins vegar alla tíð verið algerlega hornreka í íslensku stjórnkerfi, alveg frá því að EES samningurinn tók gildi.“