*

föstudagur, 24. maí 2019
Innlent 5. apríl 2017 15:35

Matís gagnrýnir skýrslu FA um gjaldheimtu

Matís, sem er í eigu ríkisins, segir smæð íslenskrar matvælaframleiðslu ekki leyfa birtingu opinberrar verðskrár.

Ritstjórn
Aðsend mynd

Matís segir útgáfu opinberrar verðskrá verða til þess að minnka hagkvæmni og sveigjanleika sem ekki myndi þjóna hagsmunum viðskiptavina rannsóknarstofnunarinnar.

Kemur þetta í frétt frá fyrirtækinu, sem er í eigu ríkisins, í tilefni umfjöllunar um gjaldskrá eftirlitsaðila í kjölfar skýrslu Félags atvinnurekenda um eftirlitsgjöld sem Viðskiptablaðið hefur fjallað um.

Segja verðlagningu byggða á raunkostnaði

„Í skýrslunni er gagnrýnt að ekki sé hægt að nálgast heildstæða gjaldskrá Matís, hvorki gegnum bein samskipti né á heimasíðu Matís,“ segir í frétt fyrirtækisins.

„Verðlagning Matís er byggð á raunkostnaði við mælingar og rannsóknastofa Matís er faggilt. Kostnaður við að viðhalda faggildingu er hluti af verði mælinga hjá Matís, ásamt afskriftakostnaði, sérhæfðu viðhaldi, efniskostnaði, tíma starfsfólks o.fl. 

Þurfa stundum að vinna um helgar

Matís tekur við sýnum alla virka daga en vissar mælingar, sér í lagi örverumælingar, krefjast ákveðins tímaramma, sem veldur því að vinna verður í einhverjum tilvikum að vera framkvæmd um helgar.

Við gerum viðskiptavinum okkar tilboð í mælingar og vinnum með þeim að því að halda kostnaði í lágmarki, t.a.m. með því að leggja áherslu á að skipulag sýnatöku henti m.t.t. skipulags mælinga. 

Sýnafjöldi og aðgangur skiptir máli

Fjöldi sýna skiptir miklu máli í þessu samhengi og þarf að taka m.a. að taka mið af tímasetningu mælinga og aðgengis að rannsóknabúnaði.

Útgáfa einhverskonar opinberrar verðskrár væri til þess fallin að minnka hagkvæmni og sveigjanleika og myndi ekki þjóna hagsmunum viðskiptavina okkar.

Segjast í alþjóðlegri samkeppni

Ísland er í alþjóðlegri samkeppni í framleiðslu matvæla. Matís er í alþjóðlegri samkeppni um mælingar. 

Samkeppnisaðilar okkar hafa aðgang að margföldum sýnafjölda í samanburði við íslenskar aðstæður.  Slíkt býður upp á einfalda verðskrá, þar sem miðað er við að sýni fari aftast í röðina þegar þau koma.  Greitt er sérstaklega fyrir forgang.

Smæð landsins leyfi ekki verðskrá

Stærð matvælaframleiðslu á Íslandi leyfir ekki slíkt fyrirkomulag. Þess vegna er fjárfesting í innviðum og mannauði á rannsóknarstofum Matís þeim mun mikilvægari.

Þannig er stutt við matvælaframleiðslu og ferðaþjónustu og útflutningshagsmunir lykilatvinnuvega þjóðarinnar tryggðir, matvælaöryggi á Íslandi aukið, viðbragðstíma styttur og verðmætasköpun matvælaframleiðenda efld.“

Setur fyrirtækið fram tvær sérstakar athugasemdir í umfjöllun sinni um skýrsluna:

  • Bls. 14: Varðandi hækkun á „sýnatökugjaldi“ úr 61.320 krónum í 81.760 krónum. Gert er ráð fyrir því að átt er við varnarefnamælingar í ávöxtum og grænmeti. Árið 2014 fór fram viðamikil uppbygging á sviði varnarefnamælinga hjá Matís þar sem efnum sem mæld eru var fjölgað úr u.þ.b. 60 upp í 135 og eru í dag mæld tæplega 190 efni. Þetta er gert til að mæta þeim kröfum sem settar eru í matvælalöggjöf Íslands og Evrópu varðandi hámarksgildi varnarefna í þessum vörum. Ástæða hækkunar var fjölgun efna og er hún minni en hlutfallsleg fjölgun efnasambanda.
  • Bls. 21: Verðskrá Matís er ekki birt með tilskildum hætti. Matís er í samkeppni á frjálsum markaði. Viðskiptavinir leita tilboða og haga viðskiptum sínum eftir þeim tilboðum. Matís gerir ávallt tilboð fyrir hvern og einn viðskiptavin með það fyrir sjónum að hagræða kostnaði viðskiptavinar með hagræðingu í vinnu Matís, t.a.m. út frá tímasetningu mælinga og viðeigandi skipulags sýnatöku. Opinberir aðilar, Matvælastofnun og landshlutabundin heilbrigðiseftirlit, sem senda inn opinber eftirlitssýni, skipuleggja sýnatöku í samvinnu við Matís með það að markmiði að lágmarka kostnað eftirlitsþega. Verðhækkunum á mælingum er haldið í lágmarki, t.d. hafa hækkanir flest undanfarin ár verið mun lægri en hækkun launa og annars kostnaðar við mælingar.
25 ára afmælistilboð VB!

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir út árið 2019. Innifalið í tilboðinu er:

  • - Viðskiptablaðið sent heim
  • - Vefaðgangur að vb.is
  • - Frjáls verslun sent heim
  • - Fiskifréttir sent heim