Rekstrarhagnaður Eikar fasteignafélags fyrir matsbreytingu og afskriftir var 1,3 milljarðar, og jókst um 4,5% milli ára. Rekstrartekjur námu rétt tæpum 2 milljörðum á öðrum ársfjórðungi, sem er 6% vöxtur frá fyrra ári. Þar af voru leigutekjur 1,68 milljarðar og jukust um svipað hlutfall.

Hrein fjármagnsgjöld jukust einnig lítillega og voru rétt tæpur milljarður króna, en matsbreyting, söluhagnaður og afskriftir fóru úr því að vera jákvæð um 742 milljónir á 2. ársfjórðungi í fyrra, og 1058 milljónir á fyrsta fjórðungi þessa árs, í að vera neikvæðir um 498 milljónir á síðasta fjórðungi.

Félagið tapaði því 149 milljónum á fjórðungnum, samanborið við 839 milljón króna hagnað á sama tímabili á fyrra ári, og 1103 milljón króna hagnað á fyrsta fjórðungi ársins.

Þá lækkaði virðisútleiguhlutfall úr 96,8% í lok júní í fyrra, og 96% í lok mars á þessu ári, í 95,2% í lok júnímánaðar.

Heildareignir félagsins námu 91.119 m.kr. þann 30. júní 2018, þar af námu fjárfestingareignir 86.862 m.kr. og eignir til eigin nota 3.717 m.kr. Eigið fé félagsins nam 29.280 m.kr. í lok júní 2018 og var eiginfjárhlutfall 31,2%.

Spá um EBITDA óbreytt
Stjórnendur félagsins hafa uppfært rekstrarspá félagsins. Að mati stjórnenda bendir allt til þess að áætlanir félagsins sem gerðar voru í upphafi árs um EBITDA ársins standist innan 1% skekkjumarka. Í afkomuspá félagsins sem birt var þann 9.febrúar sl. var gert ráð fyrir að EBITDA félagsins yrði 5.223 m.kr. á föstu verðlagi og 5.300 m.kr. m.v. 2,5% jafna verðbólgu.

Í tilkynningu Eikar til kauphallarinnar kemur einnig fram eftirfarandi:

„Félagið hefur haft til skoðunar hvort til staðar séu vannýtt tækifæri í eignasafni félagsins sem eru til þess fallin að styrkja tekjugrunn þess. Í því samhengi var skipuriti félagsins breytt þar sem nýtt svið, viðskiptaþróun, var stofnað. Sviðinu er ætlað að byggja upp starfsemi í fasteignum félagsins og efla þjónustu við viðskiptavini. Áhersla verður meðal annars lögð á stafræna þróun og að fara nýjar leiðir í nýtingu fasteigna með fjölbreyttari tekjustofnum.“

„Þá hefur Eik fasteignafélag undirritað áskriftarsamkomulag um þátttöku í breska framtakssjóðnum (e. private equity fund) NW1 UK Logistics LP með tilteknum fyrirvörum þar sem félagið skuldbindur sig til þess að leggja sjóðnum til allt að 10.000.000 GBP.“