Á Alþjóðlega safnadaginn 18. maí síðastliðinn undirrituðu safnstjóri Listasafns Reykjavíkur, Ólöf K. Sigurðardóttir, og eigendur Bændamarkaðsins Frú Laugu, Rakel Halldórsdóttir og Arnar Bjarnarson, samning um rekstur veitingastaðar í Hafnarhúsinu við Tryggvagötu.

Matstofa Frú Laugu mun bjóða upp á hollan mat, ítalskt kaffi, ítölsk vín og fleira góðgæti. Matseðilinn verður breytilegur eftir dögum og verður boðið upp á rétti dagsins, súpa er í boði daglega og maturinn verður beint frá býli. „Það sem við erum að hugsa aðallega er að koma með inn í Matstofuna það sem við erum að bralla í búðunum hjá okkur, varðandi aðföng og fleira. Við ætlum að vera með kaffisölu, vín og íslenskt grænmeti,“ segir Arnar Bjarnason, eigandi Frú Laugu.

Hann segir að þau hafi verið að gæla við þá hugmynd að opna matstofu og fóru hjólin að snúast þegar þau fengu Agötu Kontra, kokkanema til liðs við sig.„Við erum mjög heppin að fá hana með okkur og það sparkaði okkur enn frekar út í þetta verkefni. Ein helsta nýbreytnin við þennan rekstur er að þegar safnið er opið lengur en venjulega, þá ætlum við að vera með vínkvöld. Það verða því reglulega vínkvöld á staðnum á fimmtudagskvöldum,“ segir Arnar.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Meðal annars efnis í blaðinu er:

  • Skiptum er lokið á OSN Eignarhaldsfélagi ehf.
  • Viðtal við forstjóra fyrirtækisins Iceland Seafood International.
  • Formaður BSRB segir styttri vinnuviku auka framleiðni.
  • Fjármálastjórar eru bjartsýnir um þróun rekstrarumhverfis fyrirtækja.
  • Búist er við svakalegu stórlaxasumri.
  • Umfang lífeyrissjóða sagt skaða samkeppni.
  • Mikil ávöxtun er af vaxtamunarviðskiptum.
  • Um þrettán þúsund íbúðir verða byggðar á höfuðborgarsvæðinu næstu fimm árin.
  • Svipmynd af Birgi Stefánssyni, fjárfestingastjóra Íslandssjóða.
  • Ítarlegt viðtal við Bjarna Benediktsson, efnahags- og fjármálaráðherra.
  • Huginn og Muninn eru á sínum stað auk Týs sem fjallar um Icesave.
  • Óðinn fjallar um ástandið í Venesúela.