Matthías Johannessen hefur selt hlut sinn í samheitalyfjafyrirtækinu Xantis Pharma, sem er að mestu í eigu Novator og mun senn hætta aðkomu sinni að félaginu. „Ég er búinn að ná samkomulagi við Novator um að selja minn hlut og er að ganga frá verkefnum þannig að ég mun fara í nýjar fjárfestingar á nýju ári,“ segir Matthías. Matthías hefur undanfarin tvö ár starfað hjá Xantis Pharma fyrst sem fjármálastjóri og síðar sem aðstoðarforstjóri. Lyfjafyrirtækið var stofnað árið 2016 af fyrrverandi starfsmönnum Actavis og Novator, fjárfestingafélagi Björgólfs Thors Björgólfssonar, sem lengi vel var aðaleigandi Actavis.

Starfslok Matthíasar koma í kjölfar ráðningar nýs forstjóra Xantis Pharma í vor eftir að fyrri forstjóri, Lars Ramneborn, lét af störfum vegna veikinda. Heimildir Viðskiptablaðsins herma að stjórnendur fyrirtækisins hafi haft ólíka sýn á því og það eigi þátt í starfslokunum. „Það er algjörlega á mínum forsendum sem ég hætti,“ segir Matthías. Auk Matthíasar hefur Grigory Chudakov, sem starfaði sem framkvæmdastjóri og var meðeigandi hjá Xantis Pharma, einnig hætt störfum hjá félaginu. Því eru þrír af fjórum upphaflegu meðeigendum Xantis Pharma frá árinu 2016 hættir störfum.

Auk Matthíasar og Chudakov voru meðeigendurnir þeir Lars Ramneborn og Gunnar Beinteinsson. Gunnar starfar áfram hjá Xantis sem framkvæmdastjóri félagsins. Nýi forstjórinn heiti Tihomir Oreskovic og var forsætisráðherra Króatíu í níu mánuði árið 2016. Hann var bæði fyrir og eftir þann tíma framkvæmdastjóri hjá ísraelska lyfjarisanum Teva Pharmaceuticals og hefur starfað innan lyfjageirans meira og minna frá árinu 1992.

Leiðrétt: Ranghermt var í prentuðu útgáfu Viðskiptablaðsins að Matthías Johannessen hefði átt og selt hluti í Novator. Hlutaðeigandi eru beðnir velvirðingar á þessum mistökum.