*

sunnudagur, 17. febrúar 2019
Innlent 13. nóvember 2018 15:14

Máttu ekki auglýsa áfengi

365 miðlar máttu ekki auglýsa áfengi í tímaritinu Glamour þó svo það hafi verið gefið út af erlendu dótturfélagi.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Fyrirtækinu 365 var ekki heimilt að auglýsa áfengi í tímaritinu Glamour þó svo það hafi verið gefið út af erlendu dótturfélagi. Þetta kemur fram í dómi Héraðsdóms

Fyrirtækið 365 miðlar höfðaði mál gegn fjölmiðlanefnd sökum þess að þeim var gert að greiða 1 milljón króna í stjórnvaldssekt fyrir að hafa auglýst áfengi í tímaritum Glamour og hafi þar með brotið gegn lögum um fjölmiðla. 

„Stefnandi [365] byggir fyrst og fremst á því að stefndi hafi farið út fyrir valdmörk sín með umræddri ákvörðun. Þar sem stefnandi sé ekki útgefandi tímaritsins heldur annað félag með staðfestu í Bretlandi geti ekki staðist að hann sæti ábyrgð vegna auglýsinga í tímaritinu, enda falli fjölmiðillinn utan gildissviðs 3. gr. laganna. Útgefandi tímaritsins, 365 Media Europe Limited, sé með aðalskrifstofu sína í London og hafi stjórnarformaður félagsins, Nadia Ingerslew Ingwar, jafnframt búsetu í Bretlandi," segir í dómnum.

Í niðurstöðu dómsins var ekki fallist á kröfu stefnanda og 365 því gert að greiða sektina.

„Að mati dómsins eiga sömu röksemdir við í máli þessu, enda er bann við áfengisauglýsingum í 4. mgr. 37. gr. laga nr. 38/2011 byggt á sams konar sjónarmiðum og tekur bannið og heimild til álagningar stjórnvaldssekta til allra sem eins er ástatt um. Verður því ekki fallist á að ákvörðun stefnda hafi brotið gegn jafnræðisreglunni eða reglum EES-réttar. Samkvæmt öllu framangreindu er ekki fallist á þær röksemdir sem stefnandi styður kröfu um ógildingu hinnar umdeildu ákvörðunar við. Verður stefndi því sýknaður af kröfu stefnanda."