Hæstiréttur hefur fellt úr gildi synjun Matvælastofnunar á heimild til að flytja inn fæðubótarefni sem inniheldur mikið koffín.

Óskaði matvælafyrirtækið eftir að fá að flytja umrætt efni inn en heildarmagn koffíns í vörunni miðað við ráðlega notkun er 540 milligröm.

Ekki hægt að fullyrða að væri skaðlaust að mati ESB

Samkvæmt frétt matvælastofnunar um málið synjaði hún leyfinu á grundvelli álits rannsóknarstofu Háskóla Íslands í næringarfræðum og rannsóknarstofu sama skóla í eiturefnafræðum.

Byggðu þær ráðleggingar á því að ekki væri hægt að fullyrða að neysla á koffíni sem færi yfir 400 mg á dag væri skaðlaus til lengri tíma litið samkvæmt drögum að skýrslu Matvælaöryggisstofnunar Evrópu.

Hefði verið hægt að breyta ráðlögðum dagskammti

Mótmæli umsækjandans byggðu á því að hér væri um brot á jafnræðis- og meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar og kom með þá ábendingu að hægt væri að veita leyfið með skilyrðum um minnkaðann ráðlagðann dagskammt.

„Matvælastofnun stóðu með öðrum orðum til boða vægari úrræði en að hafna með öllu umsókninni, þ.e. með því að gera kröfu um nýjar merkingar,“ segir í frétt stofnunarinnar.

„Það væri því ljóst að stofnunin hefði farið strangar í sakirnar en nauðsyn bar til og brotið þar með meðalhófsreglu stjórnsýslulaga.“