Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, lýsti því yfir að hún vildi byggja upp sanngjarnara Bretland í kjölfar útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu. Þar sér hún fyrir sér aukið hlutverk ríkisins til þess að laga úr misskiptingu í landinu.

Þetta er meðal þess sem kom fram í ræðu May á flokksfundi Íhaldsflokksins í Bretlandi. Hún þakkaði forvera sínum, David Cameron, fyrir sín störf í þágu þjóðarinnar, en lagði áherslu á það að þörf væri á breytingum.

Snerist ekki bara um ESB

May benti einnig á það í ræðu sinni að þjóðaratkvæðagreiðslan um útgöngu Breta úr ESB, snerist ekki einungis um Evrópusambandið, heldur hafi það verið ákall um breytingar innanlands.

„Ef að við bregðumst ekki við og nýtum þetta tækifæri til að breyta hag hins almenna borgara, þá mun gremja innan landsins aukast til hins verra,“ sagði Theresa May í ræðu sinni.

Gagnrýndi breska Seðlabankann

May gagnrýndi einnig Seðlabankann fyrir peningastefnu sem hafi orðið þess valdandi að stýrivextir hafa haldist lágir í Bretlandi. Hún telur að það hafi ýtt undir misskiptingu auðs.

Hún hnippti einnig við breskum fyrirtækjum og sagði að það væri nauðsynlegt að þau sýndu samfélagslega ábyrgð. Þar tók hún sérstaklega dæmi um forstjóra fyrirtækja með ofurbónusa sem dæmi.

Á vef Financial Times er hægt að lesa ítarlega greiningu á ræðu Theresu May.