Háskóli Íslands hefur gengið til samstarfs við Yale School of Management í Bandaríkjunum og IESE Business School of Navarra í Barcelona, sem báðir er í allra fremstu röð í heiminum á sviði MBA-náms. Með samstarfinu mun MBA-nám við Háskóla Íslands eflast verulega en það felur í sér að MBA-nemar Háskólans sitja krefjandi og öflug námskeið í hvorum samstarfsskóla á námstímanum. Greint er frá þessu í fréttatilkynningu.

Yale School of Management er hluti af Yale háskóla sem er í áttunda sæti yfir bestu háskóla heims samkvæmt röðun Times Higher Education. Yale School of Mangement er auk þess í ellefta sæti yfir þá skóla sem skara fram úr á heimsvísu í MBA-námi og IESE er í því tólfta samkvæmt mati Financial Times.

,,Samstarf við þessa virtu háskóla hefur mikið faglegt gildi fyrir námið í heild og setur MBA-nám Háskóla Íslands í flokk þeirra bestu. Háskóli Íslands er nú þegar í hópi 250 bestu háskóla í heimi á hinum viðurkennda matslista Times Higher Education. Sú staða byggist ekki síst á mjög öflugu rannsóknastarfi og birtingum vísindamanna skólans í viðurkenndum erlendum vísindatímaritum. Styrkur Háskólans á listanum hefur tryggt honum fjölda samstarfssamninga við marga af fremstu háskólum heims," segir Svala Guðmundsdóttir, dósent og starfandi stjórnarformaður MBA námsins við Háskóla Íslands.

Svala segir að þeir nemendur sem hefja MBA-nám í haust í Háskóla Íslands munu fara í námsferð til IESE í Barcelona á vorönn árið 2020 og til Yale í New Haven í Bandaríkjunum á haustönn sama ár.

,,MBA-námið gerir miklar kröfur til einstaklinga. Við leggjum áherslu á að þróa leiðtogahæfileika en einnig viljum við virkja frumkvöðlakraftinn í hverjum og einum. Við þjálfum okkar fólk í að þekkja og skilja hvað skiptir máli og að það geti komið því í verk. Nemendur okkar vinna fjölmörg raunverkefni og skoða ólíka þætti í rekstri fyrirtækja. Einnig leggjum við áherslu á að nemendur fái þjálfun í að koma fram í sjónvarpi og fjölmiðlum. Kennarar í MBA-náminu við HÍ eru í fremstu röð í íslensku samfélagi og þess má geta að þrír af okkar kennurum í fjármálum og rekstri eru umsækjendur um stöðu seðlabankastjóra," segir Svala.