*

laugardagur, 23. febrúar 2019
Innlent 12. nóvember 2018 12:44

McDonald's ekki á leið til Íslands

Ekki er útlit fyrir það að McDonald's muni snúa aftur til Íslands í náinni framtíð að sögn talsmanns fyrirtækisins.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Að sögn talsmanns McDonald's í Bretlandi er ekkert til í þeim fréttum að hamborgararisinn hyggist opni útibú hér á landi. Vísir greinir frá þessu.

Eins og Viðskiptablaðið greindi frá í gær þá vildi New York Post meina að McDonald's ætlaði sér að snúa aftur til Íslands, en síðasta stað keðjunnar var lokað árið 2009. Í grein bandaríska miðilsins var farið yfir að uppgangur í ferðaþjónustu hafi opnað Ísland fyrir fjárfestum. Þessar fréttir reyndust rangar eins og áður segir.

Í svörum McDonald's við fyrirspurn Vísis kemur fram að Íslendingar þurfi að bíða eitthvað lengur eftir því að gylltu bogarnir skjóti upp kollinum hér á landi. Hamborgararisinn hafi alls engin áform um að opna útibú á Íslandi í nánustu framtíð.

„Hjá McDonalds metum við og greinum þær viðskiptalegu- og efnahagslegu forsendur sem eru til staðar við mat á því hvort opna eigi veitingastað á nýju markaðssvæði. Á þessari stundu höfum við engin áform um að opna veitingastað á Íslandi,“ hefur Vísir eftir talsmanni McDonald's í yfirlýsingu frá fyrirtækinu. 

Stikkorð: Ísland Mc Donald's