McDonald's gætu þurft að greiða um 500 milljónir dala í afturvirka skatta til Lúxemborg, ef að skyndibitarisinn fengi sömu meðferð og Apple hlaut á dögunum. Þetta kemur fram í greiningu Financial Times.

Framkvæmdaráð Evrópusambandsins skipaði nýverið tæknirisanum Apple að greiða um 13 milljarða dollara til Írlands. Talið er líklegt að tvö önnur risafyrirtæki gætu beðið sömu örlög af höndum ESB — McDonald's og Amazon.

Evrópsku höfuðstöðvar McDonald's eru í Lúxemborg og þar greiðir fyrirtækið skatt sem nemur 1,49% af hagnaði. Er það lægra en 29,2% skattur sem annars er lagður á hagnað fyrirtækja í Lúxemborg Ef að miðað er við Apple-málið, þá er talið líklegt að skatturinn sem að McDonald's þurfi að greiða sé um 500 milljónir dollara. Þetta var reiknað út af blaðamönnum Financial Times.

Forsvarsmenn McDonald's telja að fyrirtækið hafi ekki fengið ívilnandi skattameðferð — og að fyrirtækið hafi að jafnaði greitt um 27% skatt af hagnaði sínum í Evrópu.

Aðgerðir Evrópusambandsins hafa valdið miklum fjaðraþyt í Bandaríkjunum, sér í lagi hjá stórfyrirtækjum.