Skyndibitakeðjan Burger King keypti heilsíðuauglýsingar í New York Times og Chicaco Tribune dagblöðunum í morgun og kallaði eftir vopnahléi við keppinautinn McDonald‘s. Mælti Burger King með því að risarnir tveir myndu sameina krafta sína og búa til „McWhopper“ hamborgara, en Whopper er flaggskip Burger King keðjunnar.

Hugmyndin á bakvið auglýsinguna var að skapa umræðu í tengslum við góðgerðarátak sem stefnir að því að 21. september verði gerður að opinberum friðardegi. Fernando Machado, einn af markaðsstjórum Burger King, segir að ekki hafi verið um auglýsingabrellu að ræða heldur vonaðist hann til að McDonald‘s myndi samþykkja að selja þennan blandaða hamborgara þann 21. september.

Steve Easterbrook, forstjóri McDonald‘s svaraði beiðni Burger King á Facebook og hann var ekki hlynntur hugmyndinni. Hann sagðist ekki vilja líkja vinalegri samkeppni við þær hörmungar sem eiga sér stað í stríði en var opinn fyrir annars konar alþjóðlegu átaki í baráttunni fyrir friði.

Ef markmið Burger King var að koma einhvers konar höggi á McDonald‘s virðist það hafa tekist. Fjölmargir hafa lýst yfir óánægju sinni með viðbrögð McDonald‘s á samfélagsmiðlum. Hægt er að lesa meira um málið á vef Business Insider .