Forsvarsmenn Virðingar og Kvika undirrituðu í nóvember viljayfirlýsingu sameiningu fyrirtækjanna og í desember var samkomulag um helstu skilmála undirritað.

„Áreiðanleikakannanir hófust í upphafi þessa árs og gert er ráð fyrir að þeim ljúki í febrúar," segir Hannes Frímann Hrólfsson, forstjóri Virðingar. „Ferlið gengur ágætlega og í raun er engra frétta að vænta fyrr en niðurstöður áreiðanleikakannanna liggja fyrir.

Upphaflega sýndum við áhuga á að gera tilboð í Kviku. Það þróaðist hins vegar þannig að félögin settust niður og ræddu kosti þess að þau yrðu einfaldlega sameinuð. Niðurstaðan var að félögin sáu hvort um sig mikinn ávinning í slíkum samruna sem varð til þess að stjórnir félaganna komust að samkomulagi um skiptahlutföll sem nú er unnið eftir.

Frumkvæði okkar í upphafi var einkum drifið áfram af þeirri skoðun okkar að þörf væri á frekari vexti félagsins auk þess að ná fram frekari hagræðingu á markaðnum. Ég er búinn að taka þátt í að sameina þrjú fyrirtæki í eitt hjá Virðingu og þetta er bara enn eitt skrefið í frekari hagræðingu. Það er ljóst að sameinað félag Kviku og Virðingar yrði gríðarlega öflugt félag á fjármálamarkaði. Þá er í raun um að ræða fjárfestingabanka sem er álíka stór og fjárfestingabankahluti Íslandsbanka eða Landsbankans þegar horft er til t.a.m. tekna af fjárfestinga starfsemi.

Heildareignir í stýringu hjá sameinuðu félagi yrðu um 220 milljarðar, fyrirtækjaráðgjöfin yrði gríðarlega öflug og fjölmargir sjóðir í rekstrinum. Miðlun yrði öflug og félagið með starfsemi erlendis, þannig held ég að sameinað félag verði í ákveðinni lykilstöðu þegar horft er á umhverfi fjármálamarkaðarins á næstu árum. Það er tækifæri fyrir starfsfólk, hluthafa og ekki síst viðskiptavini að geta verið hjá svo öflugum aðila.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .