Atlantsolía var stofnuð árið 2002 af Guðmundi Kærnested, Brandon Rose og Símoni Kjærnested og þeir eru ennþá eigendur. Guðrún Ragna Garðarsdóttir, framkvæmdastjóri Atlantsolíu, segir að uppbygging fyrirtækisins hafi verið markviss og stöðug. Fyrsta bensínstöðin undir merkjum Atantsolíu var opnuð í lok árs 2003.

Guðrún segir einfaldleikann hafa verið þeirra leiðarljós. „Við erum bara að selja bensín og olíu.“ Hjá Atlantsolíu starfa um 20 manns og segir Guðrún uppbyggingu fyrirtækisins einfalda sem auki yfirsýn og skilning á rekstrinum dag frá degi. „Við höfum reynt að koma þessum einfaldleika áfram til viðskiptavinanna.“ Guðrún segir Atlantsolíu sífellt reyna að einfalda bensínkaupin t.d. með dælulyklinum. „Það er kannski ekkert sérstaklega skemmtilegt að kaupa bensín en við viljum einfalda það og gera sem þægilegast og vera ekkert að blanda öðrum viðskiptum inn í það.

Við vorum leiðandi í þróun dælulykilsins og það tók hin félögin tvö ár að koma með hliðstæða lausn. Að auki höfum við bætt við ýmissi þjónustu til að einfalda bensínkaupin. T.d. buðum við fyrst upp á tölvupóstkvittanir. Við erum með þjónustusíður sem sýna yfirlit eldsneytiskaupa og þú getur reiknað út eyðsluna. Einnig er hægt að láta loka fyrir kaup á annaðhvort bensíni eða dísel til að koma í veg fyir að röngu eldsneyti sé dælt.“

Ítarlegra viðtal við Guðrúnu má lesa í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.