Eitt helsta hlutverk nýs framkvæmdastjóra markaðssviðs ORF Líftækni, Elísabetar Austmann, verður uppbygging á vörumerki húðvörulínu fyrirtækisins, Bioeffect. Elísabet kemur frá einu öflugasta fyrirtæki landsins.

„Eftir átta ár hjá Marel vildi ég prófa nýja hluti, Orf er ótrúlega áhugavert félag, það er ungt en með mjög skemmtilega sögu og ég hef trú á að það eigi mikið inni, þannig að ég vildi taka þetta skref. Fyrir mig var spennandi að fara aftur inn á neytendamarkað, sem er svolítið langt síðan ég hef verið inn á eftir að hafa verið í markaðssetningu á fyrirtækjamarkaði síðustu ár. Ég byrjaði hins vegar á að vinna með alþjóðleg vörumerki eins og Lace og PepsiCo hjá Ölgerðinni og var mjög lærdómsríkt að fá innsýn í vinnubrögð erlendu birgjanna sem hefur nýst mér vel síðan,“ segir Elísabet.

„Það skemmtilegasta við markaðsfræðina er hve mannleg hún er. Ég segi oft að markaðsfræðin snúist um að þekkja og greina fólk og læra að vinna með því. Það má segja að auglýsingamarkaðsfræðin sé svona viðskiptalega hliðin á listinni, sem hentar mér vel.“ Elísabet er gift Hilmari Garðari Hjaltasyni sem starfar hjá Capacent og eiga þau þrjú börn.

„Við eigum hana Önnu Björk sem er 26 ára og svo tvíburana Dag og Mána, sem eru 21 árs. Ég er mikil fjölskyldumanneskja, og reynum við að hóa fjölskyldunni reglulega saman og eyða tíma hvert með öðru. Ég horfi slatta á fótbolta enda spila strákarnir mínir báðir í PepsíMax deildinni þannig að ég fer eins mikið og ég get að fylgjast með þeim. Ég fer á skíði og svo eigum við hund sem heitir Frosti sem ég fer mikið í göngur með til að viðra hann og svo ferðumst við mikið innanlands á sumrin og svo til útlanda inn á milli,“ segir Elísabet spurð um lífið utan vinnunnar.

„Af utanlandsferðunum stendur kannski helst upp úr ferð til Kúbu árið 2017, en í henni gistum við aldrei á hótelum heldur heima hjá íbúum sem gaf okkur innsýn inn í magnaða sögu fólksins. Í Havana gistum við til dæmis hjá eldra fólki sem drýgði á þennan hátt takmarkaðan ellilífeyrinn. Það bjargaði þeim að eiga þetta stóra og fallega hús sem þau fengu úthlutað því þau höfðu verið ákveðið fyrirfólk á vegum ríkisins, hann hafði keppt á ólympíuleikunum en hún var fyrirsæta.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .