Kaupréttur bandarískra sjóða og Goldman Sachs á tæplega 22 prósenta hlutar til viðbótar í Arion banka gildir til 19. september næstkomandi eða sex mánuðum eftir að tilkynnt var um kaupin. Sjóðirnir ásamt Goldman Sachs eignuðust 30 prósenta hlut í Arion banka fyrr á árinu fyrir um 49 milljarða króna. Frá þessu er greint í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins , en þetta er meðal þess sem kemur fram í bréfi Kaupþings til Más Guðmundssonar seðlabankastjóra og Benedikts Jóhannessonar fjármálaráðherra þann 14. febrúar síðastliðinn.

Bréfið var sent til að óska eftir staðfestingu stjórnvalda á því að salan á Arion banka til erlendra aðila væri í samræmi við þau skilyrði sem voru sett þegar Kaupþing hlaut undanþágu frá lögum um gjaldeyrismál og að greiða mætti fyrir hlutina með Bandaríkjadölum og evrum. Í svarbréfi kemur meðal annars fram að byggt á upplýsingum frá Kaupþingi og greiningu SÍ, að salan á Arion banka ógni ekki gengis-, peninga-, eða fjármálastöðugleika.

Þegar kaupin voru gerð kunnug var tekið fram að kauprétturinn myndi renna út „áður en kemur að mögulegu almennu útboði á hlutum í Arion banka.“ Eins og áður hefur verið greint frá er stefnt að tvöfaldri skráningu Arion banka á markað, bæði í Svíþjóð og á íslandi, þó óvíst sé hvenær hún komi til með að fara fram.