Bjarni Benediktsson forsætisráðherra var viðmælandi Viðskiptablaðsins í vikunni. Þar sagði hann meðal annars að Óttarr Proppé hafi ekki rætt trúnaðarbrest við sig skömmu áður en fundur Bjartrar framtíðar hófst, og að pólitíska landslagið hefði breyst til framtíðar.

Hver er þín sýn í stjórnmálum? Hvers vegna ertu að þessu?

„Þótt ótrúlegt megi virðast þá var það þannig að verðbólgan var 20% eða meiri frá því að ég var þriggja ára nánast þar til ég fór í háskóla. Ég horfi til þess tíma sem tímabils glataðra tækifæra í mörgu tilliti. Ég ákvað að taka góðan tíma af starfs­ ævinni í stjórnmál til að reyna að láta gott af mér leiða og ýta undir langtímahugsun sem byggist á sjálfbærni. Ekki bara í efnahagsmálum heldur á öllum sviðum.

Ég er algerlega sannfærður að við eigum tækifæri á að gera Ísland að fyrirmyndarlandi á svo mörgum sviðum og að lífsgæði hér verði áfram með því besta sem þekkist. Mín sýn snýst um að byggja upp umhverfi þar sem fólk getur látið til sín taka og það er tryggt að framtakssemi borgi sig. Umhverfi þar sem ríkið gerir vel og með hagkvæmum hætti það sem það á að gera og tekur ekki meira af fólki en nauðsyn krefur. Ég vil líka að við notum þessi stóru kerfi okkar til að jafna aðstöðu einstaklinga og gefum öllum landsmönnum tækifæri. Þetta held ég að sé uppskrift að því að verða fremst meðal þjóða.“

Þessi metnaður og þessi markmið færu fyrir lítið ef þú værir óbreyttur þingmað­ ur úr Suðvesturkjördæmi. Hvað gerirðu ef Sjálfstæðisflokkurinn verður ekki í ríkisstjórn?

„Eftir þessar kosningar vil ég geta sagt að við höfum gert okkar besta til að afla stefnu flokksins stuðnings. Ég hef enn trú á því að það muni skila árangri. Stjórnmálin geta tært fólk upp ef það setur ekki sjálfið aðeins til hliðar og sættir sig við að það kemur bara svo og svo miklu í verk.

Á vissan hátt er þátttaka í stjórnmálum eins og að hafa ostaskera á sér sem skefur af egóinu, þunnt lag á hverjum degi. Ég hef séð stjórnmálamenn sem eru úrvinda og illa farnir eftir pólitísk áföll. En mótlæti og gagnrýni, jafnvel ósigrar móta mann og styrkja ef maður kann að virkja það sér í vil. Fyrstu kosningar mínar sem formaður fóru illa.

En ég einbeitti mér að því að læra af því og nýta fyrir framhaldið. Það var ákveðin blessun fyrir mig að vera ekki sendur strax í fremstu víglínu stjórnmálanna því ég fékk aðeins að koma inn á kantinum og lærði mjög mikið á því. Ég sá fólk sem ég hélt að væri úr stáli bara bráðna við lítinn hita. Ég horfði á það fólk og sá hvernig það brást við utanaðkomandi áreiti og pólitískum þrýstingi og hugsaði með mér: „Ég ætla aldrei að verða svona.“ Maður er mannlegur, ég er ekki að segja annað. Andstreymi og erfiðleikar reyna á mann en það er bara lífið. Það hefur oft hjálpað mér að segja við sjálfan mig: ekki biðja um að þetta sé auðvelt.“

Ríkir einhugur um þig sem formann innan flokksins?

„Ég ætla ekki að gerast dómari í því máli. Ég var mjög þakklátur þegar ég fékk yfir 90% stuðning á síðasta landsfundi. Ef maður verður var við óeiningu í Sjálfstæð­ isflokknum spyr maður sig hvort maður sé með þá stjórn á verkefninu sem verkefnið krefst. En eins og sakir standa þá finnast mér allir ganga í takt og er ánægður með það. Ég ætla ekki að vera formaður að eilífu. Ólafur Thors var í 27 ár og ég á enn dálítið í það,“ segir Bjarni og brosir.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.