Árið 2016 var sannkallað metár hjá tölvuleikjaframleiðandanum CCP, en heildartekjur félagsins námu rúmlega 86 milljónum dala, sem jafngildir ríflega 9 milljörðum króna.

Samkvæmt tilkynningu frá félaginu, námu tekjurnar árið 2015 til samanburðar 65,7 milljónum dala og er því um ríflega 30% tekjuvöxt að ræða.

Hagnaður fyrirtækisins hefur að sama skapi aldrei verið meiri. Árið 2015 nam hagnaðurinn 20,7 milljónum dala, en árið 2016 nam hagnaðurinn 21,5 milljónum.

Fyrirtækið, var stofnað árið 1997 og var rekið með miklu tapi árin 2013 og 2014.

Eignir félagsins eru nú metnar á 83 milljónir dala og eru 45,7 milljónir dala þar af veltufjármunir.

Eigið fé félagsins nemur tæplega 41,7 milljónum dala og hefur hækkað úr 35,5 milljónum dala milli ára.

Þekktasta vara CCP er líklegast tölvuleikurinn EVE Online, en félagið hefur einnig verið að hasla sér völl á sviði sýndarveruleikans með leikjum á borð við EVE Valkyrie og EVE Gunjack.