Ég mun sinna markaðsráðgjöf, vera tengiliður við viðskiptavini og sinna viðskiptaþróun,“ segir Helgi Eysteinsson, sem starfaði sem markaðsráðgjafi hjá Íslensku auglýsingastofunni á árum áður, en hefur nú gengið inn í eigendahóp stofunnar, eftir að hafa í millitíðinni starfað bæði í bankageiranum og ferðaþjónustunni.

Telur hann að það komi sér vel fyrir bæði stofuna og ferðaþjónustuna að hafa öfluga tengiliði sín á milli, enda sé ferðaþjónustan sífellt að styrkjast.

„Það má ekki gleyma því að lykilviðskiptavinir Íslensku auglýsingastofunnar eru Icelandair Group og svo Inspired by Iceland herferðin hjá Íslandsstofu. Við erum gríðarlega stolt af því hvernig starfsfólk stofunnar og Icelandair hafa tekið höndum saman og fundið stefnu sem hittir algerlega í mark.“

Nefnir Helgi í því samhengi í EM auglýsingar Icelandair sem vakið hafa mikla athygli, en félögin frumsýndu einmitt auglýsingu meðan á Eurovision stóð sem vísaði í mótlætið sem landsliðsmenn kvennalandsliðsins í knattspyrnu hafa þurft að glíma við.

„Það er gaman að sjá hvað margt er vel gert í íslensku auglýsingaflórunni um þessar mundir og voru fleiri auglýsingar sem voru frumsýndar við sama tilefni mjög góðar,“ segir Helgi. „Þetta sýnir að íslenski auglýsingaiðnaðurinn er á fínum stað og framtíðin björt.“

Helgi er giftur Ásu Björk Tryggvadóttur og búa þau ásamt börnum sínum þremur í Garðabænum, en þau tvö eldri eru komin á fullt í knattspyrnunni.

„Ég er mikill íþróttaáhugamaður og reyni að stunda íþróttir sjálfur til heilsueflingar, með misjöfnum árangri. Núna eru það aðallega þó hjólreiðar og golf,“ segir Helgi sem spilaði handbolta á yngri árum með Víking

„Síðan fer allur hinn frítíminn í Víking, þar sem ég sit í stjórn, og hef verið í öllum hlutverkum. Ég er fæddur inn í félagið og með þetta í blóðinu, en bæði pabbi og afi hafa verið þar í sambærilegum hlutverkum.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .