*

föstudagur, 21. september 2018
Innlent 6. október 2017 12:57

Meðaltekjur undir þrítugt lækka

Hæstu launin hafa færst upp um aldursflokk og 65 ára og eldri nálgast meðaltekjur. Hæstu fjármagnstekjurnar eru í Garðabæ.

Ritstjórn
Eskifjörður er í Fjarðarbyggð, en þar er miðgildi tekna hæst. Hæstu meðaltekjurnar eru hins vegar í Garðabæ.
Aðsend mynd

Meðaltekjur einstaklinga á síðasta ári námu 5,9 milljónum króna, sem er 9,3% hærri tekjur en árið áður. Að jafnaði voru mánaðartekjur 493 þúsund krónur.

Miðgildið er hins vegar 4,6 milljónir króna, eða um 381 þúsund krónur á mánuði svo helmingurinn er með minni tekjur en það. Miðgildi heildarteknanna hefur þó hækkað um 6,5% á milli ára að því er Hagstofan greinir frá.

Dregur í sundur með elstu og yngstu en kynin nálgast hvort annað

Meðaltekjur 65 ára og eldri hafa verið að færast nær meðaltalinu, en bæði elsti og yngsti hópurinn hafa ávalt verið fyrir neðan meðaltalið. Á sama tíma hafa hins vegar meðaltekjur þeirra sem eru undir þrítugu færst fjær meðaltalinu, en það gæti skýrst af fjölgun háskólanema á þessu aldursbili.

Á síðasta rúma aldarfjórðungi hafa meðaltekjur kvenna aukist í samanburði við karla sem gefur að skilja með meiri atvinnuþátttöku þeirra. Hæstu tekjurnar hafa á sama tíma færst upp eftir aldurshópum, en árið 1990 voru þær hæstar á bilinu 40 til 44 ára, en árið 2016 voru þær hæstar í hópnum 45 til 49 ára.

Fjarðabyggð hæst utan suðvesturhornsins

Miðgildi atvinnutekna var hæst í Fjarðarbyggð, eða 5,5 milljónir, sem gefur vísbendingu um að hærra hlutfall íbúa þar séu með hærri laun, en þar líkt og á Akranesi er nokkur munur á miðgildi atvinnutekna karla og kvenna. Í þessum tölum er einungis miðað við þá sem höfðu atvinnutekjur.

Af 10 sveitarfélögum með hæsta miðgildið eru þó öll hin á suðvesturhorni landsins, en næst á eftir Fjarðarbyggð kemur Garðabær, svo Kópavogur, því næst Seltjarnarnes, svo Mosfellsbær, þá Akranes, Hafnarfjörður og loks Reykjavík í 8. sæti. Reykjanesbær og síðast Garður koma svo þar á eftir.

Meðaltal heildartekna er hæst í Garðabæ af fjölmennustu sveitarfélögunum, eða 7,4 milljónir króna. Fjármagnstekjur vega þar um 15% sem er töluvert hærra hlutfall en í öðrum sveitarfélögum. Þar á eftir kemur Fjarðarbyggð með 6,2 milljóna króna meðal heildartekjur.