*

þriðjudagur, 19. febrúar 2019
Innlent 11. júlí 2018 11:16

Mega ekki treysta á skýjaþjónustu í blindni

Íslensk fyrirtæki standi frammi fyrir sömu ógnunum og fyrirtæki úti í heimi í ljósi ört vaxandi vinsælda skýjaþjónustu.

Ritstjórn
Öryggislausnahópur Origo
Aðsend mynd

Íslensk fyrirtæki standi frammi fyrir sömu ógnunum og fyrirtæki úti í heimi í ljósi ört vaxandi vinsælda skýjaþjónustu, segir öryggissérfræðingur hjá Origo, sem hélt erindi  á ShowMeCon-hakkararáðstefnunni í Bandaríkjunum. 

„Við megum ekki halda að enginn hafi áhuga á litla Íslandi. Það er mikill misskilningur. Sömu ógnanir blasa við okkur og í öðrum löndum,“ segir Arnar S. Gunnarsson, öryggissérfræðingur hjá Origo, en í erindi hans „We don‘t have to worry about that, It‘s in the cloud“ fjallaði hann um mikilvægi þess að treysta ekki söluaðilum skýjaþjónustu í blindni og slaka aldrei á öryggiskröfum.

„Sífellt fleiri fyrirtæki hafa flutt lausnir og þjónustu yfir í skýið, enda er í mörgum tilvikum að ræða einfalda og hagkvæma lausn sem dregur úr fjárbindingu í upplýsingatækni kostnaði fyrirtækja. Það hefur orðið sprenging í fjölda fyrirtækja sem bjóða skýjaþjónustu og er það ánægjulegt að samkeppnin sé meiri en áður. Fyrirtæki sem kaupa slíka þjónustu mega þó alls ekki slaka á öryggiskröfum og því miður eru mörg dæmi um slíkt,“ segir Arnar.

„Það er freistandi að klára málin með nokkrum smellum án þess að spyrja um ferla og verklag söluaðila. Reyndin er sú að mörg fyrirtæki hafa ekki unnið heimavinnuna sína nægilega vel og því miður hafa margir orðið fyrir ómældu tjóni, þar sem söluaðili skýjaþjónustu var ekki með nægilega öflugar öryggisvarnir gagnvart tölvuþrjótum eða óværu. Sá skaði á jafnt við um íslensk fyrirtæki eins og fyrirtæki úti í heimi,“ bætir hann við.