*

sunnudagur, 20. janúar 2019
Innlent 22. nóvember 2016 10:06

Mega flytja 1,6 milljarða úr landi

Erlend tryggingafélög mega flytja 13,5 milljónir evra úr landi sem þau höfðu byggt upp í Seðlabankanum.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Samkomulag Seðlabanka Íslands frá árinu 2014 við erlend tryggingafélög um tryggingasamninga sem fela í sér sparnað erlendis hefur nú fallið úr gildi.

Hefur bankinn því heimilað félögunum að flytja úr landi innstæður sem þau höfðu byggt upp hjá honum á grundvelli hans, en sú upphæð nemur samtals 13,5 milljónum evra, eða sem samsvarar 1.631 milljónum íslenskra króna.

Samkomulagið var gert meðan gjaldeyrishöftin takmörkuðu fjárfestingar einstaklinga erlendis, en það gerði félögunum kleift að viðhalda óbreyttu samningssambandi við sína viðskiptavini hér á landi án þess að það hefði neikvæð áhrif á greiðslujöfnuð Íslands.

Átti að stuðla að jafnræði milli aðila á markaði

Var eitt af markmiðum samkomulagsins að stuðla að jafnræði meðal aðila á markaði, en lagt var upp með að það myndi gilda svo lengi sem takmarkanir væru í gildi um slíka samninga um gjaldeyrismál.

Með lögunum sem samþykkt voru hinn 21. október síðastliðinn var meðal annars afnumdar takmarkanir á fjárfestingum einstaklinga og geta þeir nú nýtt fjárfestingarheimildir sínar hjá erlendum vátryggingarfélögum.

Gildir það hvort heldur sem til samninga um greiðslu iðgjalda til söfnunar lífeyrissparnaðar í séreign, viðbótartryggingaverndar eða reglubundins sparnaðar.