Ásdís Kristjánsdóttir hefur verið forstöðumaður efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins (SA) frá árinu 2013, eða frá því að sviðið var sett á stofn. Ásdís hefur unnið við greiningarstörf nær allan sinn starfsferil. Hún segir stöðu kvenna í íslensku atvinnulífi hafa batnað undanfarin ár, þó gera megi ýmislegt betur. Hún segir kynbundinn launamun helgast af því að vinnumarkaðurinn sé of kynskiptur og gagnrýnir ný lög um jafnlaunavottun.

Ásdís er með meistaragráðu í hagfræði frá Háskóla Íslands, en nam véla- og iðnaðarverkfræði við sama skóla í grunnámi.

„Ég byrjaði að vinna sem viðskiptastjóri hjá Lánstrausti eftir að ég kláraði verkfræðinámið árið 2002. Svo fór ég í framhaldsnám í hagfræði og að því loknu árið 2005 fer ég að vinna á efnahagsskrifstofu fjármálaráðuneytisins. Ég stoppaði stutt við þar og réð mig sem efnahagsgreinanda hjá greiningardeild Kaupþings, síðar Arion banka. Ég lauk löggildingarnámi í verðbréfaviðskiptum við Háskólann í Reykjavík árið 2010 og ári síðar tók ég við greiningardeild Arion banka sem forstöðumaður. Því starfi gegndi ég þar til í árslok 2013, þegar ég tók við nýju, sjálfstæðu efnahagssviði innan Samtaka atvinnulífsins,“ segir Ásdís. Efnahagssvið Samtaka atvinnulífsins sinnir hagrannsóknum og annarri greiningarvinnu tengdri íslensku atvinnu- og efnahagslífi til kynningar innan samtakanna sem utan.

„Það mikilvægasta sem ég hef lært á mínum starfsferli er að nýta tímann vel á vinnutíma og taka því ekki persónulega ef einhver gagnrýnir mig eða okkar störf. Það eru ekki allir alltaf sammála okkur en við erum öll mismunandi.“

Vinnumarkaðurinn of kynskiptur

Staða kvenna í atvinnulífinu fer batnandi, segir Ásdís, en þó er hægt að gera betur.

„Ég tel að staða kvenna í atvinnulífinu fari batnandi. Það eru fleiri konur stjórnendur í fyrirtækjum í dag en til að mynda þegar móðir mín var á mínum aldri,“ segir Ásdís. „Við getum þó auðvitað gert betur. Fleiri konur mættu vera í forystu stærstu fyrirtækja landsins. Svo er vinnumarkaðurinn enn of kynbundinn og það er erfiðara að eiga við slíkt. Hvernig getum við fjölgað karlkynskennurum, sem dæmi?

Þrátt fyrir allt stöndum við framarlega þegar kemur að jafnrétti kynjanna. Þar tel ég að launað fæðingarorlof fyrir bæði kynin skipti verulegu máli, auk þess sem allir hafa aðgengi að leikskólum. Víða erlendis detta konur út af vinnumarkaði meðan á uppeldi barna stendur. Þær öðlast því minni reynslu og eiga erfiðara með að sinna stjórnendastöðum.“

Lög um kynjakvóta í stjórnum fyrirtækja voru sett á Íslandi árið 2010 og tóku gildi árið 2013. Ásdís segir fjölbreytileika í stjórnum eftirsóknarverðan, óháð lögfestum kynjakvóta.

„Það er sorglegt að það hafi þurft lög um kynjakvóta til að breyta samsetningu stjórnar og jafna kynjahlutföll. Hefði það þó gerst án inngripa stjórnvalda vitum við auðvitað ekki. Kynjakvóti eða ekki, þá hlýtur að vera eftirsóknarvert að skipa stjórnir hópi einstaklinga sem er mismunandi, hvort sem horft er til kynferðis, menntunar eða reynslu.“

Nánar er rætt við Ásdísi í Áhrifakonum , fylgiriti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .