Elsa María Jakobsdóttir námsmaður við danska kvikmyndaskólann segir flugfélagið Wow hafa neitað sér um að fljúga með félaginu frá Keflavíkurflugvelli út til Kaupmannahafnar undir því yfirskyni að hún væri ekki skráð undir föðurnafni sínu í vélina.

„Á sama tíma heyrði ég aðra starfsmenn í innritun ræða sín á milli að flugið væri löngu yfirbókað,“ segir Elsa María á facebook síðu sinni þar sem hún segir farir sínar ekki sléttar eftir viðskipti við félagið.„Þannig gat Wow tvíselt í sætið mitt til Köben. Til hamingju.“

Ekki skráð undir eigin föðurnafni

Segir hún að einhverra hluta vegna hafi hún verið skráð í flug sem fara átti í gærmörkun sem Elsa María maría en ekki Jakobsdóttir og það hafi dugað til að starfsmenn félagsins hafi meinað henni um að nýta flugmiðann sinn þó hún hafi sjálf orðið vitni að því að önnur flugfélög hafi leyst slík mál.

„Mér var tvívegis meinað að ræða við yfirmann, fékk ekki endurgreitt en var boðið að kaupa annað sæti á 79.000 kr og þegar ég vildi fá nafnið á þessum óliðlega starfskrafti í innritun sigaði hún öryggisverði á mig!“ Segist hún því hafa þurft að kaupa sér annað far til Kaupmannahafnar á svimandi háu verði eins og jafnan gildi um flugmiða sem keyptir eru á síðustu stundu.

Wow segir að þetta eigi ekkert með yfirbókun að gera

Svanhvít Friðriksdóttir upplýsingafulltrúi Wow air segir að því miður hafi farþeginn sem um ræðir ekki bókað sig rétt.„Þetta tilfelli hafði ekkert með yfirbókun í flug að gera,“ segir Svanhvít sem segir að fjögur sæti hafi verið laus í vélinni.

„Vegna öryggis má flugfélagið ekki breyta fornafni og eftirnafni. Þjónustuaðili okkar á Keflavíkurflugvelli fór því eftir settum reglum en nafn farþega verður að vera bókað eins og fram kemur í vegabréfi. Flugfélagið hefur samt leyfi til þess að komast til móts við farþega með því að breyta 2-3 stöfum ef um augljósa prentvillu er að ræða. Okkur þykir miður að farþegi hafi lent í þessu.“