Daniel Niddam tók við stöðu sölu- og markaðsstjóra í Evrópu hjá Sæplast Iceland í byrjun mánaðarins. Daniel segir þetta 32 ára gamla fyrirtæki vera mjög framsækið. „Starfið snýst um að selja afurðir frá tveimur verksmiðjum, ein er á Spáni og hin hér á Dalvík. Við erum hér í vöru- og viðskiptaþróun og okkar hlutverk er að styðja við sölunet okkar um allan heim,“ segir Daniel sem
uppalinn er í Frakklandi.

„Ég er eiginlega með BS í viðskiptafræði, sem ég tók í Frakklandi, og mín sérgrein var útflutningur. Ég starfaði í átta ár í fiskútflutningi, en eftir það i fimmtán ár í útflutningi á vélbúnaði fyrir fiskiðnað, fyrir Marel og 3x Technology,“ segir Daniel.

Kynntist eiginkonunni á Íslandi

„Konan mín er íslensk, alin upp í Svíþjóð en við kynntumst þegar ég var í fríi hér á Íslandi árið 1987, en þá var hún nemandi hér. Við vorum svolítið að pingpongast, það er fara á milli landa, til að byrja með. Við eignuðumst svo stúlku árið 1990, en okkur fannst ekki mjög fjölskylduvænlegt umhverfi í Frakklandi svo við ákváðum að prófa að vera hér.“

Daniel hefur unnið víða um heim. „Aðalmunurinn á vinnukúltúrnum hér og í Frakklandi er að hér er ekki marglaga skriffinnskukerfi. Þótt þú sért maðurinn á gólfinu hér hefurðu í flestum tilvikum aðgang að stjórnendum og getur komið þínu á framfæri, sem er alveg óhugsandi í Frakklandi. Það er miklu meira jafnræði hér,“ segir Daniel sem jafnframt er ánægður með að hér á landi ríki friður á vinnumarkaðnum.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð .