Verktakafyrirtækið Munck á Íslandi, sem áður hét LNS Saga, tapaði um 1,3 milljörðum króna á síðasta rekstrarári samanborið við 223 milljóna tap árið á undan.

Fjárhagsárið 2017 miðaðist við fyrstu 9 mánuði ársins að þessu sinni, til að komast í takt við uppgjör dönsku samstæðunnar sem á 86% í félaginu.

Rekstrartekjur fyrir 2017 námu tæpum 8 milljörðum króna og nam rekstrartap 1.236 milljónum króna.  Í lok reikningsársins námu eignir félagsins 7.128 milljónum króna á meðan skuldir námu 6.359 milljónum. Eiginfjárhlutfall var því 10,77% í lok árs.

Ásgeir Loftsson framkvæmdastjóri á 6% í félaginu, en aðrir hluthafar eru Teitur Ingi Valmundsson aðstoðarframkvæmdastjóri, Stefán Sigurðsson deildarstjóri sjó og jarðvinnuverkefna, Guðmundur Þórðarson deildarstjóri iðnverkefna og Agnar F. Strandberg deildarstjóri verkefna í Noregi, sem hver um sig eiga 2% eignarhlut.

Leiðrétting: Ranglega var greint frá lykiltölum í rekstri Munck á Íslandi í fyrri útgáfu fréttarinnar sem hefur verið uppfærð. Beðist er velvirðingar á mistökunum.