Arion banki segir uppsafnaða fjárfestingarþörf sveitarfélaganna á árunum 2010 til 2016 nema um 35 milljörðum króna. Er þá miðað við A-hlutann, sem alla jafna inniheldur fasteignir og gatnakerfi, en ef B-hlutanum er bætt við, en þar má finna hafnir, og hita-, vatns- og fráveitur nemur uppsöfnuð fjárfestingarþörf tæplega 120 milljörðum króna.

Greiningardeild bankans bendir á að á sama tíma hafi bókfært virði eigna sveitarfélaga landsins numið 970 milljörðum króna í árslok 2016. Jafnramt nam fjárfesting sveitarfélaganna árið 2008 eitt og sér 120 milljörðum króna að því er bankinn segir í nýjustu markaðspunktum sínum, en mikill fjárfestingarkúfur var á árunum 2006 til 2008 miðað við fyrri ár.

Fjárfestingar setið á hakanum

Bankinn segir að á undanförnum árum hafi sveitarfélögin gert vel í að greiða niður skuldir og koma á auknum stöðugleika í rekstri, enda hafi mörg þeirra illa á sig komin fjárhagslega og mikið skuldsett í kjölfar efnahagshrunsins.

Á sama tíma hafa fjárfestingar hins vegar setið á hakanum og sveitarfélögin sem heild fjárfest mun minna á undanförnum sex árum en þau hafa gert í gegnum tíðina. Það virðast þó vera sem stærstu sveitarfélög landsins stefni öll að því að auka fjárfestingar á næstu 3-5 árum.

Þannig hafa heildarfjárfestingar sex stærstu sveitarfélaganna á árinu þokast yfir meðaltal fjárfestingar á árunum 2002 til 2005, sem bankinn lítur á sem viðmiðunarár fyrir eðlilega fjárfestingu. Sögulega hafa fjárfestingar þeirra numið um 77% af heildarfjárfestingu allra sveitarfélaga landsins svo bankinn telur þetta til merkis um að þróunin sé að þokast í rétta átt.