„Um er að ræða meiri hagsmuni en þá sem voru undir í Icesave-málinu og í því máli má með varfærnum hætti telja að kostnaður við sérfræðiráðgjöf hafi farið yfir 500 milljónir króna. Til að rétt sé á hagsmunum haldið frá upphafi, þurfa stjórnvöld því að leggja til fjármuni – fjárfestingu í framtíðarhagsmunum Íslendinga,“ segir Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, um komandi samningaviðræður við Breta vegna útgöngu þeirra úr Evrópusambandinu.

Samningaviðræður þjóðanna eru að hefjast af fullum krafti á næstu vikum. Mikilvægi málsins sést best af því að sendiráð Íslands í London var sérstaklega styrkt strax eftir að niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar lá fyrir.

Ingólfur Friðriksson, sendiráðunautur við sendiráð Íslands í London, fjallaði um útgöngu Breta í samhengi við utanríkisviðskipti þjóðanna á fundi í síðustu viku.

„Fyrir Ísland er Brexit mikið hagsmunamál. Breski markaðurinn er 11% af vöru- og þjónustuviðskiptum Íslands. Þetta er nágrannaríki og mikilvæg gátt fyrir Íslendinga við umheiminn og Evrópu. Þetta er verkefni sem mun krefjast athygli okkar allra, bæði hagsmunaaðila, stjórnmálamanna og stjórnsýslunnar á komandi vikum og mánuðum,“ sagði Ingólfur.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, sagði á sama fundi að í samtölum hennar við ráðamenn í Evrópu hafi komið fram að enginn getur svarað því „hreint og klárt hvernig menn sjá fyrir sér þróunina á sviði sjávarútvegs- og landbúnaðarmála.“

„Fyrir Ísland er Brexit mikið hagsmunamál. Breski markaðurinn er 11% af vöru- og þjónustuviðskiptum Íslands. Þetta er nágrannaríki og mikilvæg gátt fyrir Íslendinga við umheiminn og Evrópu. Þetta er verkefni sem mun krefjast athygli okkar allra, bæði hagsmunaaðila, stjórnmálamanna og stjórnsýslunnar á komandi vikum og mánuðum. Hér er markmiðið, eins og alltaf, að tryggja íslenska hagsmuni,“ sagði Ingólfur en ramminn um viðskipti okkar og Bretlands er samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið og gamli fríverslunarsamningur landanna frá 1972 – og tengdir samningar. Engir aðrir samningar eru í gildi sem Ísland getur reitt sig á þegar þessum samningum sleppir.

Stærsti birginn
Ísland er stærsti birginn á breska markaðnum með sjávarafurðir. Það eru Kínverjar sem koma okkur næstir; Færeyingar eru stórir en Norðmenn eru um það bil að vera hálfdrættingar borið saman við Ísland. Útflutningsverðmætin sem um ræðir eru rúmlega 41 milljarður króna, samkvæmt tölum síðasta árs. Þetta eru 18% verðmæta útfluttra sjávarafurða frá Íslandi og 69% alls útflutnings okkar til Bretlands.

Mikilvægustu tegundirnar eru þorskur, ýsa og rækja. Fiskflök skýra 23 milljarða af heildar útflutningnum og þar af þorskur fyrir 17 milljarða – en til Bretlands fóru 23.000 tonn rúm í fyrra.

„Við flytjum út jafn mikið af þorski til Bretlands og í öllum tegundum á Spán eða Frakkland. Breski markaðurinn í þessu samhengi er okkur mjög mikilvægur og stór,“ sagði Ingólfur sem gat þess að Íslendingar hafa verið talsmenn fríverslunar með sjávarafurðum á heimsvísu. Bretar flytja mikið út af sínum fiski og því standa vonir til þess að þeir geti verið bandamenn Íslendinga við kröfugerð um fríverslun út á við, sem er tryggð á Bretlandsmarkaði með margar vörur.

Ingólfur sagði jafnframt að svo ólíklega vill til að mest af því sjávarfangi sem veitt er af breskum skipum er flutt út – en á sama tíma er Bretland risi í innflutningi á sjávarafurðum í Evrópu. Þess vegna eru hagsmunir Breta hvað varðar útflutning sjávarfangs miklir eins og hérlendis – sem gæti skipt máli í samningaviðræðum.

Íslendingar flytja mikið magn af vörum í gegnum Bretland, og ekki loku fyrir það skotið að þar gæti áhrifa, sem og á löndun íslenskra skipa þar í landi.

Dýrmætur tími
Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, fjallaði um glímuna framundan.

„Sjávarútvegurinn býr auðvitað við óteljandi óvissuþætti – fiskistofnarnir, sviptingar á mörkuðum, gengi krónunnar, veðrið, olíuverðið og kannski það sem rétt er að nefna, en ég ætti vafalaust ekki að gera, stjórnmálamenn. Brexit er enn ein áhættan sem nú er að raungerast og þá er spurningin hvernig við ætlum að takast á við þessar aðstæður. Þetta er hreint ótrúlega dýrmætur tími að undirbúa okkar málflutning gagnvart Bretum og hvernig við ætlum að vernda okkar hagsmuni við þær breytingar sem munu klárlega verða,“ sagði Heiðrún Lind sem hnykkti á því að Bretland er okkar mikilvægasti markaður fyrir sjávarafurðir og svo hefur verið um áratugi.

Hún sagði nauðsynlegt að hafa hugfast hversu hverfulir markaðir fyrir sjávarafurðir geta verið og nefndi nýleg dæmi. Annar stærsti markaður okkar fyrir sjávarafurðir, Rússland, hvarf svo að segja með einu pennastriki – en Rússlandsmarkaður var 30 milljarða virði áður en Rússar voru beittir sértækum þvingunaraðgerðum í kjölfar átakanna í Úkraínu, og Ísland er aðili að.

Heiðrún Lind nefndi til viðbótar Nígeríu hvert 15 milljarða virði af sjávarafurðum runnu áður en efnahagsástand þróaðist með þeim hætti að sú tala helmingaðist.

„Þetta er sá veruleiki sem blasir við íslenskum sjávarútvegi frá degi til dags. Það má segja að íslenskur sjávarútvegur sé heimsmeistari í að takast á við þessar aðstæður og aðlaga sig að breyttri veröld - við verðum að undirbúa vel, og sér í lagi varðandi Brexit, að vel sé haldið á spöðunum,“ sagði Heiðrún Lind.

Kína og verðmætin
Kína kom fram í máli Ingólfs á fundinum, en það gerði sú stóra þjóð einnig í erindi Heiðrúnar Lindar. Kína flytur nefnilega inn fleiri tonn til Bretlands en Íslendingar en það eru verðmætin sem gera það að verkum að við erum metin stærst á markaði. Það minnir á ákveðna þróun sem hefur orðið á Bretlandsmarkaði síðasta áratuginn. Þá var flutt til landsins mikið af óunnum fiski, síðan hefur það gerst eftir hrun að fjárfesting hefur aukist mjög í sjávarútvegi sem hefur skilað sér í fullvinnslu og þar með meiri verðmætum. Ferskur fiskur hefur sífellt meira vægi sem skýrir sókn á Frakklandsmarkaði, sem á síðasta ári var okkar annar verðmætasti markaður á eftir Bretlandi, með um 11% af heildarverðmætum útflutnings í sjávarafurðum. Í því samhengi þurfi að hafa hugfast líka, í síkvikri samkeppni, að inn á Evrópumarkaði flæðir ódýrari hvítfiskur úr eldi í beinni samkeppni við villtan veiddan fisk, eins og beitarfiskur [tilapia]og pangasius.

Immingham

Heiðrún Lind sagði það oft gleymast í umræðunni hvað Íslendingar flytja mikinn fisk um Bretland til Evrópu – bæði með flugi og sjóleiðina, sem svo er keyrt á áfangastað. Einhver gæti haldið það nærtækt að nýta Rotterdam, þá risastóru vöruhöfn til að dreifa fiski til Evrópu, en í hennar stað fer íslenskur fiskur í miklu magni til Immingham á austurströnd Englands, en íslensku skipafélögin hafa þar töluverða umsýslu.

„Þetta er lykilatriði í samkeppnishæfni íslensks sjávarútvegs þegar kemur að ferskum afurðum. Við segjumst geta veitt fiskinn og komið honum á disk neytenda í Evrópu innan tveggja til þriggja daga – það er ótrúlega dýrmætt. Til Immingham komum við fiski á sunnudegi og hann er á markaði snemma næsta morgun á meginlandinu. Ef farið væri í gegnum Rotterdam myndi það tefjast um sólarhring og fiskurinn kominn á markað á þriðjudegi – þetta er ótrúlega dýrmætur tími sem við myndum missa. Áhyggjurnar eru þær að ef markaðsaðgangur verður ekki óheftur frá Bretlandi, sem væri gengið út úr ESB, þá myndi þessi leið lokast eða verða verulega óhagkvæm með tilheyrandi blóðtöku fyrir íslenskan sjávarútveg,“ sagði Heiðrún Lind og bætti við að afar mikilvægt viðskiptasamband gæti tapast þar sem allt gengur vel fyrir sig. Slíkt viðskiptasamband skyldi enginn vanmeta.

Hættur og tækifæri
Heiðrún Lind minnti jafnframt á mikilvægi sjávarútvegs – hafsins – í baráttunni fyrir því að Bretland gengi út úr ESB. Þeir sem vilja út – ætla að taka valdið til baka og stjórna þessari auðlind að nýju og voru veigamikil rök í kosningabaráttunni.

„Í þessu felast tækifæri og ógnanir. Tækifærið felst í því að þeir komi sér upp skynsamlegri nýtingu fiskistofna, kerfi sambærilegu því íslenska. Þá má miðla reynslu og þekkingu er þetta varðar. Fiskur virðir ekki landamæri og því fleiri sem koma sér upp skynsamlegu fiskistjórnunarkerfi, mun það koma okkur til góða til lengri tíma litið,“ sagði Heiðrún en á sama hátt geta hættur leynst í því að Bretland er strandríki. Utan ESB koma þeir sem sérstakur aðili að samningum um deilistofna, en koma ekki að samningaborðinu undir fána ESB eins og hingað til.

„Þetta á við um makríl. Það mun vafalaust flækja stöðu sem var erfið fyrir. Þekkjandi Breta þá verða þeir ekkert lamb að leika sér við í þeim viðræðum. En kannski eigum við í þeim bandamann, ef þeir huga að fiskveiðum með sambærilegum hætti og við, í þessum viðræðum og að kljást við önnur ríki sem fara ekki eins vel með fiskistofna og við,“ sagði Heiðrún og bætti við að önnur ógn gæti einfaldlega falist í því að Bretar auki fiskveiðar sínar og verði sjálfum sér nógir með fiskmeti, þó þeir verði seint sjálfbærir. Það geti minnkað eftirspurn eftir íslenskum fiskafurðum sem verði að hafa hugfast til lengri tíma litið.

„Brexit er fordæmalaust og þess vegna verðum við að undirbúa okkur mjög vel, og það mun kosta mannafla, sem er til staðar hér innanlands, og utanaðkomandi þjónustu. Ég ætla að fullyrða það. Það þarf að greina okkar hagsmuni; okkar og þeirra. Hvers munu Bretar vænta af okkur – þetta eru tvíhliða samningar og báðir aðilar vilja eitthvað fyrir sinn snúð,“ sagði Heiðrún Lind og bætti við að málið krefst kostnaðar í formi ráðgjafar utanaðkomandi sérfræðinga.