CCP gaf í dag út nýja viðbót við tölvuleik sinn EVE Online sem ber heitið Retribution. Hér er á ferð átjanda viðbótin sem CCP gefur út fyrir leikinn, sem fyrst kom út árið 2003. Í fréttatilkynningu kemur fram að Retribution inniheldur ýmsar nýungar fyrir spilara EVE Online, m.a. sérstakt kerfi fyrir mannaveiðar í leiknum og nýtt geimskip ætlað til bardaga og námuvinnslu.

Útgáfunni fylgja jafnframt ýmsar uppfærslur og endurbætur, m.a. á refsilöggjöf leiksins, notendaviðmóti hans auk þess sem hljóðheimur og tónlist EVE Online hefur fengið nýtt yfirbragð.

Útgáfan er kynnt með markaðsherferð í Evrópu, Norður-Ameríku og Japan. Sérstakt kynningarmyndband fyrir Retribution útgáfuna var frumsýnt í gær á stærstu leikjasíðu heims IGN.com og fékk þar mjög góðar viðtökur, að því er segir í tilkynningunni. Myndbandið er framleitt af CCP og sér íslenski tónlistarmaðurinn HaZaR um tónlistina.

Sjá má myndbandið hér .