Verðhækkanir íbúða á Norðurlandi hafa verið meiri en á höfuðborgarsvæðinu að undanförnu og jafnvel í nokkrum sveitarfélögum jafnvel á landsvísu. Kaupsamningum fjölgaði á Norðurlandi í fyrra á meðan þeim fækkaði á höfuðborgarsvæðinu. Mestar hafa verðhækkanirnar verið í Norðurþingi.

Þetta var meðal þess sem kom fram á opnum fundi Íbúðalánasjóðs um húsnæðismarkaðinn á Norðurlandi sem haldinn var á Hótel KEA á Akureyri í dag.

20% fjölgun kaupsamninga

Fram kom á fundinum að kaupsamningum um íbúðir á Norðurlandi hafi fjölgað um 20% í fyrra. Til samanburðar fækkaði kaupsamningum á höfuðborgarsvæðinu um 7% milli ára. Að undanförnu hafi íbúðamarkaðurinn á Akureyri verið líflegri en á höfuðborgarsvæðinu, ef fjöldi kaupsamninga er borinn saman við fjölda íbúða.

Norðurþing stingur í stúf

Íbúðaverð hefur almennt hækkað í svipuðum takti á Norðurlandi og á landsvísu en þróunin hefur verið mismunandi milli sveitarfélaga. Norðurþing er það sveitarfélag á svæðinu þar sem meðalfermetraverð hefur hækkað mest, eða um 52% milli áranna 2015 og 2017. Á sama tímabili hækkaði meðalfermetraverð um 27% á Akureyri sem er svipuð hækkun og í Reykjavík.

Meðalsölutími íbúða á Norðurlandi hefur einnig styst verulega undanfarin misseri og mælist nú svipaður og á höfuðborgarsvæðinu.

Tíunda hver íbúð í leigu

Þá er tíunda hver íbúð á Akureyri leigð út með þinglýstum leigusamningi, sem er meira en að meðaltali á heimsvísu. Hins vegar eru hlutfallslega færri íbúðir til leigu á Airbnb á Akureyri en á landsvísu.