Meirihluti Íslendinga er andvígur því að ríkið selji eignarhluti sína í Landsvirkjun, Landsbankanum og Ríkisútvarpinu samkvæmt niðurstöðu könnunar MMR. Af þeim sem tóku afstöðu sögðust 40,6% fylgjandi því að ríkið myndi selja eignarhlut sinn í Landsbankanum, 22,8% sögðust fylgjandi því að ríkið myndi selja eignarhlut sinn í Ríkisútvarpinu og þá voru 14,7% fylgjandi því að ríkið myndi selja eignarhlut sinn í Landsvirkjun.

Stuðningur við eignasöluna er minni nú í öllum tilvikum en þegar sambærileg könnun var gerð fyrir ári síðan. Þá voru 45,6% fylgjandi sölu á eignarhlutnum í Landsbankanum, 24,9% studdu sölu á Ríkisútvarpinu og 19,6% voru fylgjandi einkavæðingu Landsvirkjunar.

Þrátt fyrir að meirihluti væri andvígur einkavæðingu ríkisfyrirtækja var viðhorf breytilegt á milli hópa. Ber þar helst að nefna að hlutfallslega færri þeirra sem styðja ríkisstjórnina sögðust vilja einkavæða ríkisfyrirtæki en þeir ekki styðja ríkisstjórnina. Þegar viðhorf er skoðað eftir stuðningi við flokka vilja hlutfallslega flestir þeirra sem styðja Sjálfstæðisflokkinn einkavæða en fæstir meðal Vinstri grænna. Af þeim sem tóku afstöðu og styðja Sjálfsstæðisflokkinn sögðust 58,5% vilja einkavæða Landsbankann, 33,1% sögðust fylgjandi sölu ríkis á eignarhlut sínum í Ríkisútvarpinu og 25,6% sögðust fylgjandi einkavæðingu Landsvirkjunar.