Tveir þriðju hlutar svarenda (66,9%) í könnun MMR á trausti almennings til saksóknara og sérstakra rannsóknaraðila segjast bera mikið traust til Evu Joly, ráðgjafa sérstaks saksóknara vegna rannsóknar á refsiverðri háttsemi í tengslum við bankahrunið.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá MMR en þetta eru 7,7 sinnum fleiri en segjast bera lítið traust til Joly (8,7%).

Fram kemur að meirihluti svarenda (52,8%) kveðst einnig bera mikið traust til sérstaks saksóknara sem eru 3,5 sinnum fleiri en segjast bera lítið traust til hans (15,2%).

Fjöldi þeirra sem segjast bera mikið traust til Ríkissaksóknara er aftur á móti nokkuð lægri, eða 35,7%, sem eru þó fleiri en segjast bera lítið traust til embættisins (26,2%).

Þá vekur MMR athygli á því að Rannsóknarnefnd Alþingis mælist hafa lítið traust meðal heldur fleiri (31,1%) en segjast bera mikið traust til hennar (27,1%). Rannsóknarnefnd Alþingis er jafnframt sú af ofangreindum stofnunum sem fæstir segjast bera mikið traust til – eða 27,1% eins og áður sagði.

Könnunin var gerð frá 13.-16. október 2009 en 968 einstaklingar svöruðu könnuninni.

Sjá könnunina í heild sinni hér (pdf skjal)