Meirihluti Íslendinga er hlynntur aðskilnaði ríkis og kirkju samkvæmt nýjum Þjóðarpúlsi Gallup. Viðhorf fólks til aðskilnaðar er þó nær óbreytt frá mælingum undanfarinna ára þrátt fyrir að breytingar hafi orðið á trausti til kirkjunnar og ánægju með störf biskups. Nær 54% eru hlynnt aðskilnaði ríkis og kirkju, nær 23% hvorki hlynnt né andvíg og rúmlega 23% eru andvíg aðskilnaði. Karlar eru hlynntari aðskilnaði heldur en konur.

Þriðjungur Íslendinga ber mikið traust til þjóðkirkjunnar en það er tíu prósentustigum lægra hlutfall en í fyrra. Rúmlega 28% bera hvorki mikið né lítið traust til þjóðkirkjunnar en nær 39% bera lítið traust til hennar.

„Eldra fólk ber meira traust til kirkjunnar en yngra, og íbúar landsbyggðarinnar meira en íbúar höfuðborgarsvæðisins. Einnig er munur á trausti fólks eftir fjölskyldutekjum og loks er munur eftir því hvað fólk kysi til Alþingis ef kosið yrði í dag, en traustið er mest hjá þeim sem kysu Sjálfstæðisflokkinn eða Miðflokkinn," segir í Þjóðarpúlsinum.

Ánægja með störf Biskups Íslands, Agnesar M Sigurðardóttur, hefur minnkað talsvert frá því í fyrra en ánægja með störf hennar mælist nú um 14%.

Konur eru alla jafna ánægðari með störf hennar heldur en karlar og íbúar landsbyggðarinnar ánægðari með störf hennar heldur en íbúar höfuðborgarsvæðisins.