63% svarenda í nýrri könnun MMR um afstöðu landsmanna til sjálfsafgreiðslukassa í matvöruverslunum kváðust jákvæð gagnvart þeim en 30% kváðust mjög jákvæð. Þá kváðust 26% hvorki jákvæð né neikvæð en 11% kváðust neikvæð.

Eins og Viðskiptablaðið sagði frá í byrjun árs hóf Krónan fyrst matvöruverslana hér á landi að bjóða upp á notkun sjálfsafgreiðslukassa, en síðan hafa borist fréttir af því að fleiri séu að fylgja í kjölfarið .

Hlutfall þeirra sem eru jákvæðir gagnvart kössunum verður enn hærra fyrir þá sem eru yngri, en 70% svarenda á aldrinum 18-29 ára kváðust jákvæð gagnvart sjálfsafgreiðslukössum, samanborið við 53% þeirra 50-67 ára og 40% þeirra 68 ára og eldri.

Neikvæðni gagnvart sjálfsafgreiðslukössum jókst með auknum aldri. Íbúar höfuðborgarsvæðisins, eða 69% kváðust jákvæðari heldur en þau af landsbyggðinni, eða 49%. Jákvæðni gagnvart sjálfsafgreiðslukössum jókst jafnframt með auknum heimilistekjum og aukinni menntun.

Stuðningsfólk Viðreisnar reyndist jákvæðast gagnvart sjálfsafgreiðslukössum, eða 86% þeirra en stuðningsfólk Flokks fólksins líklegast til að segjast neikvætt gagnvart sjálfsafgreiðslukössum, eða  18% þeirra. Könnunin var framkvæmd dagana 3. til 10. ágúst 2018 og var heildarfjöldi svarenda 957 einstaklingar, 18 ára og eldri.