Meirihluti Íslendinga telur hlutina á Íslandi almennt séð vera á rangri braut, en 54,3% svöruðu að svo væri í könnun sem MMR gerði.

45,7% sögðu hlutina vera að þróast í rétta átt í könnuninni sem var framkvæmt 1. til 5. febrúar, en það fór mikið eftir því hvaða þætti fólk hafði áhyggjur af á Íslandi eftir því í hvaða átt það taldi að hlutirnir væru að þróast.

Þeir sem höfðu áhyggjur af spillingu í fjármálum og/eða stjórnmálum, fátækt og/eða félagslegum ójöfnuði og viðhaldi velferðarkerfisins voru líklegri til að telja hlutina á Íslandi almennt séð á rangri braut, meðan þeir sem höfðu mestar áhyggjur af glæpum og ofbeldi, ofþyngd barna og verðbólgu reyndust líklegri til að telja hlutina á réttri leið.

Jafnframt var munur eftir aldri og búsetu, auk stjórnmálaskoðana, en aldurshópurinn 50 - 67 ára taldi líklegast að hlutirnir væru á rangri braut eða 62% þeirra, meðan elsti og yngsti aldurshópurinn voru líklegast til að vera á öndverðu meiði.

Voru 52% þeirra sem voru 68 ára og eldri og 51% þeirra sem voru 18 ára eða yngri á því að hlutirnir væru að þróast í rétta átt. Auk þess var meiri svartsýni ríkjandi úti á landi, en 61% þeirra töldu þróunina vera í ranga átt meðan hlutfallið var 51% meðal íbúa á höfuðborgarsvæðinu.

Stuðningsmenn ríkisstjórnarflokkanna þriggja voru líklegastir til að telja þróunina vera á réttri braut, og voru 82% stuðningsmanna Sjálfstæðisflokksins, 80% stuðningsmanna Viðreisnar og 61% stuðningsmanna Bjartrar framtíð á þessari skoðun.

Hins vegar voru stuðningsmenn Pírata líklegastir til að telja hlutina á rangri braut, eða 79%, meðan samsvarandi hlutfall var 73% fyrir stuðningsmenn Samfylkingar, 66% fyrir stuðningsmenn Vinstri grænna og 48% fyrir stuðningsmenn Framsóknarflokksins.