Mikill meirihluti kjósenda Sjálfstæðisflokksins telur að Hanna Birna Kristjánsdóttir yrði sterkari formaður fyrir Sjálfstæðisflokkinn samkvæmt nýrri könnun, sem Capacent Gallup vann fyrir Samtök áhugafólks um stjórnmál. Um er að ræða netkönnun sem gerð var dagana 31. janúar til 6. febrúar og var úrtakið 1.400 manns á öllu landinu 18 ára og eldri. Svarhlutfall var 58,0%.

Af öllum svarendum sögðust 82% telja að Hanna Birna yrði sterkari formaður, en 9% sögðust telja Bjarna sterkari formann. Af þeim sem segjast myndu kjósa Sjálfstæðisflokkinn í næstu kosningum segjast 75% líta á Hönnu Birnu sem sterkari formann, en 17% segja Bjarna vera sterkari formann.

Þá var spurt hvort viðkomandi teldi líklegra að hann kjósi Sjálfstæðisflokkinn í næstu kosningum ef Hanna Birna eða Bjarni væru formaður flokksins. Um 55% sögðu líklegra að hann kysi Sjálfstæðisflokkinn ef Hanna Birna væri formaður, en aðeins 2% sögðu líklegra að hann kysi flokkinn ef Bjarni væri formaður. Þegar svarendur við þessari spurningu eru greindir sést að stuðningur við Hönnu Birnu vex mjög hratt eftir aldri þátttakenda í könnuninni. Af þeim sem eru 55 ára og eldri segja 75% að þeir væru líklegri til að kjósa flokkinn ef Hanna Birna væri formaður.

Eins og áður segir er könnunin gerð fyrir Samtök áhugafólks um stjórnmál. Engar upplýsingar er hins vegar að finna um samtökin eða þá sem að þeim standa.