Þegar minna en tveir mánuðir eru til þingkosninga í Bandaríkjunum segja 52% kjósenda að þeir vilji að Demókratar stýri þinginu, m.a. til að halda aftur af áhrifum Donald Trump Bandaríkjaforseta. Hefur forskot Demókrata aukist úr því að vera um 8 prósentustig í ágúst í 12 nú, því á sama tíma vilja 40% skráðra kjósenda að Repúblikanar haldi stjórn á þinginu.

Þetta kemur fram í könnun WSJ og NBC, en Repúblikanar hafa haldið meirihlutanum í neðri deild þingsins síðustu átta árin. Þar áður voru Demókratar með meirihlutann í fjögur ár, en Repúblikanar í 12 ár þar áður. Fyrir kosningarnar  árið 1994 höfðu Demókratar verið með meirihlutann í neðri deildinni í 40 ár.

Repúblikanalokkurinn sem hefur nú meirihluta í báðum deildum þess sér þó aukinn áhuga stuðningsmanna sinna á kosningunum, og hefur bilið þar minnkað á milli flokkanna. Segjast nú 65% stuðningsmanna Demókrata hafa mikinn áhuga á kosningunum en 61% stuðningsmanna Repúblikanaflokksins. Áður var munurinn 12 prósentustig.

Jafnframt virðist sem ánægja með störf Trump hafi haldist nokkuð stöðug, eða um 44%, meðan þeir sem eru ánægðir með stöðu efnahagslífsins hefur hækkað úr 63% í júnímánuði upp í 69% nú.

Minni munur milli líklegra kjósenda

Könnunin skoðar einnig stuðning flokkanna fyrir kosningarnar sem verða haldnar 6. nóvember næstkomandi meðal þeirra sem eru líklegir til að kjósa. Þar er munurinn minni, eða 8 prósentustig.

Í kosningunum er kosið um öll þingsætin í neðri deildinni, fulltrúadeildinni, líkt og er gert annað hvert ár þar í landi, en 35 af 100 þingsætanna í efri deildinni, öldungadeildinni. Jafnframt verður kosið í 39 kosningum til svæðis- og ríkisstjóra, auk fjölda minni kosninga til sveitar- og borgarstjórnar. Jafnframt er oft kosið á sama tíma um sérstök málefni og jafnvel dómara í sumum tilfellum.

Mestu munar um mikinn mun á afstöðu kvenna

Fjölmörg málefni sem Demókratar hafa sett á oddinn, eins og staða ólöglegra innflytjenda, heilsugæslumál og að aðhaldi sé haldið á völdum Donald Trump sem Bandaríkjaforseta virðast njóta meiri stuðnings en andstöðu samkvæmt könnuninni.

Það sem einna mestu skiptir er þó mikið meira fylgi Demókrata meðal kvenna, eða 58% þeirra á móti 33% sem styðja Repúblikana. Á sama tíma er forskot Repúblikana meðal karla 3 prósentustig, 47% á móti 44%.